Það ríkir mikill spenningur hjá Manúelu Maggý Friðjónsdóttur Morthens þessa dagana. Nýverið stóð hún uppi sem sigurvegari Söngvakeppni NFSu, og með því tryggði hún sér sæti sem fulltrúi FSU í Söngkeppni framhaldsskólanna í vor. Hún er sextán ára frá Þorlákshöfn sem elskar tónlist af lífi og sál.
13 ár af söng
Manúela er nýnemi við Fjölbrautaskóla Suðurlands á félagsgreinalínu. Hennar helsta áhugamál hefur alltaf legið í tónlistinni. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hún sungið í um það bil 13 ár og Manúela stefnir ekkert á að minnka við sig núna. „Ég byrjaði að syngja áður en ég gat talað,“ segir hún.
Manúela segir sig vera alin upp í mjög listrænni fjölskyldu og á þar sterkar rætur í tónlist. „Það hefur alltaf verið tónlist í kringum mig,“ segir hún. Manúelu finnst skemmtilegt að læra á ný hljóðfæri og segir kunnáttu sína á ný hljóðfæri alltaf hafa komið með ótrúlegum léttleik. „Líklega vegna ADHD sem gerir þetta áhugamál svo mikið sterkara,“ segir Manúela.
„Ég byrjaði að syngja áður en ég gat talað“
Aðspurð hvernig það kom til að hún skráði sig í Söngvakeppni NFSu segir Manúela að það hafi í raun verið sjálfsagður hlutur. Hún tekur öll þau tækifæri sem henni gefst að fá að syngja eða taka þátt í söngkeppnum.
Söngkeppni NFSu var haldin 5. nóvember sl. og heppnaðist keppnin afar vel. Lagið sem Manúela tók var lagið Ekkert breytir því með hljómsveitinni Sálin hans Jóns míns þar sem Manúela sigraði. Lagið segir Manúela vera afar fallegt íslenskt lag og þess vegna hafi hún valið að syngja það.
Þrátt fyrir að hafa staðið uppi sem sigurvegari segist hún alls ekki hafa reiknað með því. „Nei, ég bjóst ekki við að vinna,“ segir hún. Manúela segir sig ekki hafa tekið þátt til þess að vinna heldur einungis af reynslunni og skemmtuninni við að koma fram á sviði.
Sigurinn hefur nú fært henni það stóra hlutverk að vera fulltrúi FSU í Söngkeppni framhaldsskólanna í vor. Þetta er stórt skref en Manúela er afar spennt fyrir komandi tímum. „Ég er mjög spennt og það er mikill heiður.“
Allt í allt finnst Manúelu ekki erfitt að koma fram fyrir framan fólk. „Mér finnst auðveldara að syngja uppi á sviði en að fara út í búð,“ segir hún. Manúela segir sig yfirleitt finna fyrir smá stressi áður en hún kemur fram á sviði en að stressið fari um leið og hún stígur upp á svið. Hún passar sig að undirbúa sig vel og ef hún er vel undirbúin minnkar stressið. „Ég slaka alveg á huganum og hugsa bara jákvætt,“ segir hún.

Mamma og pabbi besta hvatningin
Þeir sem hafa hvað mest haft áhrif á Manúelu í tónlistinni nefnir hún mömmu og pabba. „Þau sem hafa mestu áhrifin á mig eru mamma og pabbi, þau hafa alltaf hvatt mig sama hvað,” segir Manúela. Hún er afar þakklát fyrir þeirra stuðning og hvatningu við áframhald í tónlistarbransanum.
En þegar kemur að fyrirmyndum í tónlistarheiminum nefnir Manúela hann Bubba Morthens, Öldu Dís og Dolly Parton. „Ef ég fengi að syngja með hvaða listamanni sem er, þá væru þau efst á listanum,“ segir hún án þess að hika augnablik.
Manúela hlustar sjálf á fjölbreytta tónlist. „Alls konar, en aðallega jazz og gamaldags tónlist.“ Með fjölbreyttum tónlistarstíl hefur hún fengið innblásturinn á að semja sjálf sín eigin lög og texta og finnst henni skemmtilegt að spreyta sig áfram.
Atvinna í söng klárlega draumurinn
Að taka þátt í Söngkeppni framhaldsskólanna er stórt tækifæri fyrir unga tónlistarmenn og Manúela er full af orku og spenningi. „Ég vil bara bæta í reynslubankann og læra alltaf eitthvað nýtt í hvert skipti,“ lýsir Manúela hvað hún vill fá úr því að keppa í Söngkeppni framhalsskólanna.
Manúela er í því ákveðin að þetta er eitthvað sem hana langar að vinna með í framtíðinni og hefur það alltaf verið draumurinn. „Það hefur alltaf verið draumur minn að gera þetta í framtíðinni. Ég sé þetta ekki bara sem áhugamál.“ Með 13 ára söngreynslu, fjölskyldu sem styður hana og sterka rödd er ljóst að hún hefur bæði hæfileika og þrautseigju til að fylgja draumnum eftir.
„Ekki bera þig saman við aðra“
Að lokum gefur Manúela góð ráð til annarra sem langar að feta sömu braut. „Vera óhrædd, æfa sig vel og hvetja sjálfan sig upp,“ segir hún ákveðin. Hún segir að maður eigi ekki að bera sig saman við annað tónlistarfólk, það séu allir með einstaka rödd. „Þetta á að vera gaman. Ekki taka öllu of alvarlega,“ segir hún í lokin.
SEG

