Háskólalest Háskóla Íslands er orðin fastur og vinsæll liður til að kynna vísindin um land allt. Lestin hefur nú lagt leið sína til Suðurlands. Nú á laugardaginn 22. nóvember næstkomandi verður Háskólalestin með Opið vísindahús í félagsheimilinu í Borg í Grímsnesi frá kl. 13 til 16. Aðgangur er ókeypis og gestum á öllum aldri er endilega velkomið að kíkja og upplifa spennandi heim vísindanna.
DFS.is ræddi við Kristínu Ásu Einarsdóttur sem kynnti okkur nánar um Háskólalestina.
Kristín Ása Einarsdóttir er lestarstjóri Háskólalestarinnar og skólastjóri Háskóla unga fólksins. Hún hefur starfað hjá Háskóla Íslands í yfir þrettán ár og segir að sá hluti starfsins sem snýr að miðlun vísinda til yngri nemenda sé sérstaklega gefandi og skemmtilegur.
Hvað er Háskólalest Háskóla Íslands?
Háskólalest Háskóla Íslands ferðast um landið með fræðafólki af mismunandi sviðum og býður upp á fjölbreytta dagskrá fyrir nemendur, kennara og íbúa.
„Við bjóðum nemendum í efstu bekkjum grunnskóla upp á lifandi og fjölbreytt námskeið, kennurum kennarasmiðjur til fagþróunar og öllu samfélaginu Opið vísindahús,“ útskýrir Kristín. „Háskólalestin er því sannkallað vísindaævintýri fyrir alla aldurshópa.“
Innan Háskólalestarinnar er fræðifólk Háskóla Íslands af öllum sviðum, félagsvísindum, hugvísindum, menntavísindum, heilbrigðisvísindum, verkfræði, raun- og náttúruvísindum og þverfræðilegum greinum.
„Rannsóknasetur HÍ á Suðurlandi tekur einnig þátt í þessari ferð sem er afar ánægjulegt. Það eru mikil forréttindi að vinna með þessum frábæru vísindamiðlurum sem hafa einstaka hæfileika til að gera vísindi aðgengileg og spennandi,” segir Kristín.
Sterkt samstarf sveitarfélaga og skóla
Kristín segir að það sem standi upp úr sé einstakt samstarf skólanna og sveitarfélaganna í Uppsveitum og Flóa.
„Þetta samstarf gerði okkur kleift að bjóða nemendum úr sex skólum að sækja námskeiðin – Bláskógaskóla, Reykholtsskóla, Flúðaskóla, Kerholsskóla, Flóaskóla og Þjórsárskóla,“ segir hún.
Sveitarfélögin hafi lagt til aðstöðu og húsnæði bæði í Flóaskóla fyrir kennsluna og í Borg í Grímsnesi fyrir Opið vísindahús. „Það hefur verið afar ánægjulegt að starfa með öllu þessu fólki að undirbúningnum.“

Markmið Háskólalestarinnar
Grunnmarkmið Háskólalestarinnar er að kveikja áhuga fólks á vísindum og fræðum, skapa upplifun hjá þeim sem kveikir forvitni og innblástur. Tilgangurinn er að styðja við starf grunnskólanna, bjóða kennurum fræðslu og efla tengsl Háskóla Íslands við samfélagið um land allt.
Það að fara út á landsbyggð styrkir því og eflir því tengsl og samræðu Háskóla Íslands við íbúa, kennara, nemendur.
„Þetta er mikilvægur hlekkur í því að efla tengsl háskólans við allt íslenskt samfélag. Háskólalestin er lifandi dæmi um hvernig háskóli getur verið virkur þátttakandi í samfélaginu og stuðlað að auknum áhuga og skilningi á vísindum.”
Kristínu sjálfri finnst einstakt að hitta unga fólkið og finna áhugann á námi og vísindum. „Það er líka ómetanlegt að hitta kennara, skólastjórnendur og íbúa víðs vegar um landið og fá að starfa með fræðafólki HÍ sem hefur þá sérstöku gáfu að miðla vísindum á lifandi og aðgengilegan hátt.“
Hvað næst?
Kristín lítur björtum augum á framtíð Háskólalestarinnar og að hún muni halda áfram að þróast og stækka með áherslu á fjölbreytni og nýsköpun. „Það væri frábært að geta farið í enn fleiri ferðir á ári. Við erum nú þegar að ná að heimsækja um þrjá til fjóra landshluta ár hvert, sem er ánægjulegt,“ segir hún.
Þá hvetur Kristín Sunnlendinga á öllum aldri að fjölmenna og taka virkan þátt í Opna vísindahúsinu í Borg í Grímsnesi næstkomandi laugardag.
SEG

