2.9 C
Selfoss

Sigursteinn Sumarliðason knapi ársins hjá Sleipni

Vinsælast

Á uppskeruhátíð Sleipnis þann 15. nóvember sl. var Sigursteini Sumarliðasyni veitt viðurkenningin Knapi ársins hjá Sleipni annað árið í röð.

Sigursteinn hefur átt gott ár og sýnt mikla færni með þá Krókus frá Dalbæ og Liðsauka frá Áskoti.

Segja má að árið hjá Sigursteini hafi einkennst af hraða, þar sem hann keppti að stærstum hluta einungis í skeiðgreinum. Á þeim fjölmörgu mótum sem Sigursteinn keppti á sigraði hann 250 m skeið á WR íþróttamóti Sleipnis á Krókusi frá Dalbæ og með Liðsauka tryggði hann sér 2. sætið í 250 m skeiði á WR íþróttamóti Geysis.

Í ágúst héldu Sigursteinn og Krókus leið sína til Sviss þar sem þeir kepptu fyrir Íslands hönd í 250 og 100 m skeiði. Þar náðu þeir glæsilegum árangri og urðu tvöfaldir silfurhafar í báðum þessum greinum.

Knapi ársins í flokki áhugamanna var valin Soffía Sveinsdóttir en hún hlaut viðurkenninguna þriðja árið í röð. Á þeim fjórum stórmótum utan húss sem hún keppti á reið hún til A úrslita í 1. flokki á þeim öllum og átti hún einnig góðu gengi að fagna í suðurlandsdeildinni en þar sigraði hún slaktaumatölt áhugamanna. Á opna WR íþróttamóti Geysis stóðu hún og Skuggaprins frá Hamri efst eftir forkeppni í T3 með einkunina 6,87 sem jafnframt varð hæsta einkunn þeirra á árinu í T3 1. flokki.

Knapi ársins í flokki áhugamanna var valin Védís Huld Sigurðardóttir. Védís átti einstakt ár og sýndi svo sannarlega hvað þrotlaus vinna og eljusemi getur skilað sér. Hún keppti á fjölmörgum mótum með frábærum árangri, en það sem stendur upp úr er að hún varð tvöfaldur Íslandsmeistari í tölti og fjórgangi ungmenna hér á heimavelli og toppaði svo árið með því að tryggja sér tvöfaldan heimsmeistaratitil á Ísaki frá Þjórsárbakka í sömu greinum.

Nýjar fréttir