3.5 C
Selfoss

Bláskógabyggð sveitarfélag ársins 2025

Vinsælast

Í síðustu viku útnefndi félagsfólk bæjarstarfsmannafélaga og stéttarfélaga innan BSRB sveitarfélag ársins 2025. Útnefningin er byggð á niðurstöðu viðhorfskannana félagsfólks sem Gallup sá um að framkvæma. Það voru fjögur sveitarfélög sem fengu útnefningu sem sveitarfélag ársins og er gaman að segja frá því að það voru sveitarfélögin fjögur í Uppsveitum, sem eru Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur og Skeiða- og Gnúpverjahreppur. Alls uppfylltu 22 sveitarfélög skilyrði um svarhlutfall og komust inná listann, en þau fjögur sem fengu hæstu heildareinkunn fengu útnefningu sem sveitarfélag ársins. Af þessum fjórum sveitarfélögum lenti Bláskógabyggð í fyrsta sæti. Þetta er fjórða árið í röð sem slík könnun er gerð og þess má geta að Bláskógabyggð hefur fengið viðurkenningu á hverju ári.

Tilgangurinn með könnuninni er að hvetja stjórnendur til að veita starfsumhverfinu meiri athygli sem og að ráðast í umbótaverkefni þar sem þess gerist þörf. Niðurstöðurnar eru einnig ætlaðar til almennra umræðna um starfsumhverfi og stjórnun á vinnustöðum, félagsfólki til hagsbóta. Einnig er tilgangur með könnuninni að veita góðum vinnustöðum viðurkenningu fyrir að hlúa vel að starfsfólki.

Með könnuninni  fást mikilvægar upplýsingar um starfsumhverfi og stjórnun í sveitarfélaginu. Mælingin nær yfir fjölbreytta þætti, eins og stjórnun, starfsanda, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleika í starfi, ímynd sveitarfélagsins, ánægju og stolt og jafnrétti. Með könnun á þessum þáttum fæst heildstæð mynd af innra starfsumhverfi sveitarfélaganna.

Að fá verðlaun sem sveitarfélag ársins 2025 er mikil viðurkenning á því góða starfi sem unnið er innan stofnana Bláskógabyggðar. Við erum mjög stolt af þeim góðu og faglegu stjórnendum sem stýra okkar stofnunum og er gott til þess að vita hvað stjórnendur eru að ná góðum árangri innan sinna stofnana. Þá er þetta líka viðurkenning til sveitarstjórnar að við séum að skapa góð skilyrði og utanumhald fyrir okkar starfsfólk.

Ég vil óska okkur öllum, starfsfólki, stjórnendum og sveitarstjórn, til hamingu með þessa útnefningu og þakka starfsfólki fyrir að taka þáttí könnuninni. Útnefningin hvetur okkur öll til að huga enn betur að starfsumhverfi okkar starfsfólks og vinna markvist að því að gera betur á öllum starfsstöðum sveitarfélagsins.

Helgi Kjartansson
Oddviti Bláskógabyggðar

Nýjar fréttir