2.9 C
Selfoss

Frá Tryggvagarði til útivistarskóga um alla sýslu.

Vinsælast

Þann 2. nóvember síðastliðinn voru 85 ár liðin frá stofnun Skógræktarfélags Árnesinga. Félagið var stofnað á fundi í Tryggvaskála á Selfossi þar sem 80 framsýnir íbúar sýslunnar mættu, með það markmið að klæða skóg- og skjóllaust landið trjágróðri.

Frá upphafi hafa deildir félagsins verið starfandi um alla Árnessýslu. Í dag standa fimmtán skógræktarfélög að Skógræktarfélagi Árnesinga, en mörg þeirra hafa ræktað upp vinsæla útivistarskóga í nágrenni þéttbýlisstaða hér á Suðurlandi. Má sem dæmi nefna Hallskot við Eyrarbakka, Hellisskóg við Selfoss, skóginn í Hamrinum við Hveragerði og Kvenfélagsskóginn á Flúðum.

Fyrstu skrefin í starfi Skógræktarfélags Árnesinga voru gróðursetning í Glymskóga, austan við Selfoss og gróðursetning Tryggvagarðs. Stærsta verkefnið hófst árið 1954 þegar félagið keypti jörðina Snæfoksstaði í Grímsnes- og Grafningshreppi. Þar hefur félagið ásamt aðildarfélögum ræktað upp mikinn skóg sem í dag er vinsælt útivistarsvæði.

Á Snæfoksstöðum hefur félagið byggt upp litla úrvinnslustöð þar sem ýmsar afurðir, eins og eldiviður, kurl og timbur, eru unnar úr skóginum og seldar. Einnig er félagið að rækta jólatré í reitum. Félagið heldur jólatrjáamarkað þrjár helgar fyrir jól á Snæfoksstöðum og býður fólki að koma að höggva eigin tré í skóginum, eða kaupa úr hjallinum okkar. Unnið er að því að bæta við gönguleiðum, hirða um skógana og auka fjölbreytni trjátegunda á Snæfoksstöðum.

Á þessum 85 árum hefur Skógræktarfélag Árnesinga sannarlega staðið við upphaflega markmið sitt. Langstærstur hluti þeirrar vinnu sem félagið og aðildarfélög þess hafa staðið fyrir hefur verið unnin í sjálfboðaliðavinnu. Þetta ómetanlega framlag fjölda fólks, áratugum saman, hefur skilað þeim skógum sem við njótum nú. Tekist hefur að klæða stór svæði í Árnessýslu trjágróðri og kveikja varanlegan áhuga á trjárækt og skógrækt hjá fólki af mörgum kynslóðum um alla sýsluna.

Mynd: Aðsend.

Nýjar fréttir