2.9 C
Selfoss

Ný barnabók um ást, minningar og Alzheimer kemur út

Vinsælast

Gunnhildur Stella Pálmarsdóttir, eða Gunna Stella eins og flestir þekkja hana, gefur út nýja barnabók í næstu viku sem ber titilinn Amma nammigrís – engin venjuleg amma. Bókin er byggð á sönnum atburðum úr lífi móður hennar, sem greinst hefur með Alzheimer, og er skrifuð af djúpri virðingu og hlýju fyrir þeim sem lifa með sjúkdómnum og fjölskyldum þeirra.

Sagan segir frá lífsglaðri ömmu sem hoppar á trampólíni, gerir kollhnísa og getur borðað ótrúlegt magn af nammi – en nú er hún farin að gleyma. Barnabarnið hennar reynir að skilja hvað er að gerast og lesandinn fylgir með í hjartnæmu og fyndnu ferðalagi þar sem gleði, minningar og ást fléttast saman.

Bókin er bæði skemmtileg og fræðandi og útskýrir Alzheimer-sjúkdóminn á einfaldan og næman hátt þannig að börn geti betur skilið og rætt breytingarnar sem verða þegar ástvinur byrjar að gleyma. Amma nammigrís – engin venjuleg amma er kærleiksrík leið til að hefja mikilvægt samtal innan fjölskyldna og minnir á að þó minningar dofni, þá dofnar ástin aldrei.

Amma nammigrís – engin venjuleg amma. Mynd: Aðsend.

Nýjar fréttir