Hrönn Erlingsdóttir er matgæðingur vikunnar.
Ég vil byrja á því að þakka æskuvinkonu minni, henni Völu Rún, fyrir að skora á mig sem matgæðing vikunnar. Ég ætla að gefa ykkur uppskrift að kladdaköku sem slær alltaf í gegn hvort sem er með kaffibolla og rjóma eða sem eftirréttur með ís og ferskum ávöxtum. Þetta er mjög einföld kaka að baka, það er hægt að búa hana til með góðum fyrirvara og eins má frysta hana með karamellukreminu á. Njótið vel!
Kladdakaka með karamellu
120 gr. smjör
2 egg
3 dl. sykur
1 ½ dl. hveiti
5 msk. bökunarkakó
2 tsk. vanillusykur
Hnífsoddur salt
· Bakaraofninn er hitaður í 175 °, undir- og yfirhita (ekki blástur).
· Smjörið brætt.
· Allt er hráefnið sett í skál, það þarf ekkert endilega hrærivél, það er vel hægt að hræra þessa köku saman með sleif.
· Brædda smjörinu bætt út í og hrært þar til allt hefur blandast vel saman.
· Bakað í 24 cm formi í ca. 20 mínútur. Gott er að setja bökunarpappír í botninn því kakan á að vera frekar blaut.
· Kakan er látin kólna alveg áður en karamellan er sett ofan á.
Karamellukrem
1 dl. rjómi
½ dl. sýróp
½ dl. sykur
50 gr. suðusúkkulaði
50 gr. smjör
· Öll hráefnin sett í pott nema smjörið.
· Hrært í blöndunni og blandan látin malla þar til hún þykknar, ca. 10 –15 mín.
· Potturinn tekinn af hellunni og smjörið sett út í.
· Hrært þar til allt hefur blandast vel saman.
· Blandan látin standa í smá stund svo að hún bæði kólni og þykkni.
· Kreminu er þá hellt yfir kökuna og hún látin kólna í ísskáp í 2 –3 tíma áður en hún er borin fram.
Njótið vel!
Ég skora á hana Bjarnfríði Laufeyju (Bennu) vinkonu mína sem næsta matgæðing. Hún er algjör meistari í eldhúsinu hvort sem er að baka eða elda, ég veit að hún lumar á góðri uppskrift til að deila með okkur.

