Þær Aníta Rós Aradóttir og Þórfríður Soffía Haraldsdóttir eru tvær kraftmiklar konur, báðar búsettar á Selfossi.
Aníta er menntaður íþrótta- og heilsufræðingur og hefur verið að starfa hjá WorldClass í tíu ár. Auk þess rekur Aníta sitt eigið fyrirtæki, Fitlíf, og sinnir endurhæfingu í gegnum Virk.
Þórfríður útskrifaðist sem sjúkraþjálfari 2016 og vinnur hún á stofu sem sjúkraþjálfari í Þorlákshöfn. Hún er einnig sjálf með slitgigtaskóla sem heitir Slitgigtaskóli Þórfríðar. Þar að auki er Þórfríður hlaupaþjálfari hjá Frískum Flóamönnum.
Það er því augljóslega mikið að gera hjá vinkonunum. „Við erum báðar alveg á fullu með að hjálpa fólki og vinna með mannslíkamann,“ segir Þórfríður brosandi.
Ný áskorun
Hyrox-keppni sameinast af átta kílómetra hlaupi og kraftþrautum inn á milli, hvort sem það er að ýta sleða, draga sleða, róa og margt fleira. Keppandi hleypur einn kílómetra og svo þrek til skiptis, átta sinnum. Sá sem klárar á stysta tímanum sigrar.
„Hyrox er ekki tæknilega flókið heldur leggur meiri áherslu á úthald og styrk.“ Stelpurnar segja að ef maður er með ágætis hreyfigrunn í hlaupi og styrk geti maður klárlega tekið þátt.
Aníta og Þórfríður höfðu báðar verið mikið í fjallahlaupum og Crossfit en í maí á þessu ári rákust þær á þessa íþrótt sem nefnist Hyrox. „Ég segi við Anítu að það sé keppni núna í maí í Berlín og spyr hvort við ættum ekki bara að fara,“ segir Þórfríður. Af hvatvísi skrá þær sig í paraflokk kvenna í pro-flokki sem er með þyngri þyngdum. Þær viðurkenna að þær vissu í raun ekkert hvað þær voru að koma sér út í.

„Okkur gekk ógeðslega vel og við vorum yfir meðaltali,“ segir Þórfríður. Eftir það var ekki aftur snúið. Síðan þá hafa þær vinkonurnar verið að keppa á Íslandi með framúrskarandi árangri. Þær kepptu m.a. í Ultra Form–keppni í boði Sigurjóns Ernis og unnu þar fyrsta sætið.
Nú í mánuðinum hafa stelpurnar flogið til Póllands til Gdansk til að keppa á Hyrox-stórmóti þar. Saman náðu þær frábærum árangri á um klukkustund og 14 mínútum og lentu þær í fjórða sæti í þeirra aldursflokki. Alls voru um 20 Íslendingar sem tóku þátt í þeirri keppni. „Það er svo gaman að sjá hvað það er fjölbreyttur hópur af fólki að taka þátt,“ segir Aníta.

Að búa til ákveðna taktík
Stelpurnar segja mikilvægt í svona parakeppnum að finna gott jafnvægi hjá hvorri annarri. „Þórfríður er með frábært hlaupaþol og ég er sterk í sprengikraftinum, þannig við spilum á styrkleika hvorrar annarrar,“ útskýrir Aníta. Þær skipta verkum og æfingum á milli sín bæði til að viðhalda úthaldi og til þess að ná að klára á eins fljótum tíma og mögulega hægt er.
Aníta og Þórfríður segja það mjög hvetjandi að hafa hvor aðra að. „Við lítum alltaf á þetta sem okkar gæðavinkonustundir. Í stað þess að fara í einhverja djammferð til útlanda förum við frekar í heilsuferð til útlanda.“ Þær segja gott að hafa einhvern sem maður vill ekki bregðast og að það ýti mann í að vilja afreka og gera betur. „Við verðum bara betri vinkonur fyrir vikið,“ segir Þórfríður.
Hápunktur og krefjandi kaflar
Þegar stelpurnar voru spurðar hvað þeim fyndist skemmtilegast við að keppa sögðu þær báðar að það væri klárlega að fá myndir sendar frá keppninni. Þær segjast geta hlegið mikið að myndunum sem koma til baka. „Flestir á myndum virðast svo hetjulegir en svo koma myndir af mér og Anítu eins og við séum að springa,“ segir Þórfríður hlæjandi.

Aníta og Þórfríður segja þó að skemmtunin felist ekki síður í öllum ferðalögunum sem fylgja því að keppa erlendis. Þeim finnst uppbyggjandi og frábært að fara í heilsuferð þar sem þær geta bæði fengið að skoða sig um eða taka æfingar og að sjálfsögðu að fá að keppa.
Með hápunktinum koma þó áskoranir. „Þetta reynir á hausinn að halda áfram þó að maður vilji hætta.“ Stelpurnar segja að þó að í grunninn sé hreyfing líkamleg áreynsla geti það oft á tímum verið krefjandi fyrir hausinn og hugarfar að halda áfram. „Maður hugsar alltaf maður hefði getað gert betur.“
Það eru allir velkomnir
Framundan hjá stelpunum eru spennandi tímar. Þær ætla að halda í áframhaldandi æfingar í vetur og svo í mars á næsta ári stefna vinkonurnar á að taka þátt í Blue Trail sem er utanvegahlaup á Tenerife. Næsta Hyrox-keppni sem þær langar að taka þátt í er í Barcelona í maí.
Hyrox er stanslaust að verða vinsælli íþrótt sérstaklega í Evrópu og hefur náð mikilli fótfestu hér á Íslandi. Aníta og Þórfríður segja alla geta byrjað og hvetja þær alla sem vilja prófa að bara mæta og hafa gaman. „Það eru allir velkomnir,” segja þær í lokin.
SEG

