Ingibjörg Birgisdóttir blokkflautu- og grunnskólakennari gaf nýverið út sína þriðju ljóðabók, Dásamleg dýr. Bókin inniheldur ljóð fyrir börn um íslensk dýr í sveit og náttúru.
Bókin er með harðri kápu og ríkulega myndskreytt af listakonunni Nataliu Yacuzzy, sem hefur myndskreytt allar bækur Ingibjargar hingað til. Afraksturinn er einstaklega falleg bók þar sem ljóð Ingibjargar lifna við með fallegum myndum. Bókinni er ætlað að laða unga lesendur að ljóðalestri en allir ættu að hafa gaman að ljóðunum, börn, foreldrar og aðrir ljóðaunnendur.

Í tilefni af útgáfu bókarinnar verður efnt til útgáfuhófs á Bókasafni Árborgar á Selfossi, laugardaginn 1. nóvember klukkan 11:00. Boðið verður upp á léttar veitingar, kleinur og pönnukökur að sveitasið og einnig verður hægt að ná sér í áritað eintak á kynningarafslætti. Allir velkomnir. Bókin er einnig fáanleg í Bókakaffinu og á vefverslun skjalda.is.

