2.9 C
Selfoss

Á-listinn býður fram í sveitarstjórnarkosningum 2026

Vinsælast

Á-listinn í Rangárþingi ytra hefur ákveðið að bjóða fram lista í sveitarstjórnarkosningum 16. maí 2026 og er það í fimmta sinn sem listinn býður fram. Listinn fékk umboð kjósenda til að leiða sveitarstjórn með hreinum meirihluta í sveitarstjórnarkosningum í maí 2022. Fulltrúar listans hafa á kjörtímabilinu fundið fyrir sterkum meðbyr og hvatningu íbúa og atvinnulífs um að halda áfram góðu uppbyggingarstarfi í sveitarfélaginu, m.a. með markvissri uppbyggingu skólastofnana og íþróttaaðstöðu. Á-listinn mun ekki skorast undan ábyrgð og vill því halda áfram að leiða sveitarfélagið í gegnum mesta framkvæmdaskeið þess frá upphafi. Markmiðið er einfalt – að halda áfram að byggja upp öflugt sveitarfélag þar sem fólk vill búa, starfa og ala upp börn.

Grunngildi Á-listans

Á-listinn er hreyfing áhugafólks um sveitarstjórnarmál, íbúalýðræði og fjölskylduvænt samfélag. Við stöndum fyrir ábyrga fjármálastjórn, aukin lífsgæði fyrir alla aldurshópa, fjölbreytt atvinnulíf, sterkar menntastofnanir og opna stjórnsýslu. Við stuðlum að innviðauppbyggingu í þágu öryggis og hagkvæmni fyrir alla íbúa, jafnt í þéttbýli sem dreifbýli. Á-listinn í Rangárþingi ytra er málefnamiðuð stjórnmálahreyfing – óháð stjórnmálaflokkum á landsvísu.

Saga og eðli framboðsins

Á-listinn var stofnaður snemma árs 2010 sem listi áhugafólks um sveitarstjórnarmál í Rangárþingi ytra. Frá upphafi hefur listinn lagt áherslu á að blanda ekki flokkapólitík inn í sveitarstjórnarmálin en leggja fremur áherslu á að tefla fram lausnamiðuðu fólki úr öllum stéttum samfélagsins sem brennur fyrir málefnum sveitarfélagsins. Þessar áherslur og opin stjórnsýsla, með miklu upplýsingaflæði til íbúa, hafa verið rauður þráður í öllu starfi listans frá upphafi.

Næstu skref

Á-listinn boðar áframhaldandi samtal við íbúa, félög og fyrirtæki um forgangsröðun framkvæmda, styrkingu grunnþjónustu og góðan rekstur – með skýrum markmiðum og virku íbúalýðræði.

Stjórn Á-listans í Rangárþingi ytra

Nýjar fréttir