Nú geta íbúar Hellu og nágrennis notið þess að fá matarpantanir afhentar heim að dyrum í gegnum Snjallverslun Krónunnar. Allar pantanir eru teknar saman í verslun Krónunnar á Selfossi og keyrðar á Hellu þrisvar sinnum í viku. Fyrstu sendingar fóru frá Selfossi í byrjun vikunnar og gátu færri pantað með þeirri ferð en vildu. Krónan mun fylgjast vel með eftirspurninni og tryggja að framboðið mæti þörfum íbúa á svæðinu.
„Þetta markar stórt skref í átt að því að gera líf fólks einfaldara, alveg sama hvar það býr. Við viljum að íbúar landsbyggðarinnar hafi sama aðgengi að fjölbreyttu vöruúrvali, samkeppnishæfu verði og frábærri þjónustu og er Hella þar engin undantekning. Við fögnum því að geta loksins þjónustað Hellu á nýjan hátt eftir að við þurftum að loka verslun Kjarvals árið 2021 sem hluti af skilyrðum í sátt Festi, móðurfélags Krónunnar, og Samkeppniseftirlitsins, í kjölfar samruna,“ segir Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar. „Á Hellu búa yfir þúsund manns sem geta nú pantað matvöru beint heim að dyrum, hvort sem það er fyrir heimili, fyrirtæki eða stofnanir. Við erum stolt af því að geta aukið aðgengi fólks að fjölbreyttu vöruúrvali á góðu verði með aðstoð tækninnar.“

Þjónustan á Hellu bætist við þau svæði sem þegar njóta heimsendingar á Suðurlandi, þar á meðal Flúðir, Laugarvatn, Þorlákshöfn, Stokkseyri, Eyrarbakki, Hveragerði og Selfoss. Nú standa einnig yfir framkvæmdir á nýju verslunarhúsnæði Krónunnar á Höfn í Hornafirði sem mun opna á næsta ári. Með opnun verslunarinnar mun svæðið sem Krónan þjónustar stækka til muna og spanna stærstan hluta Suðurlands.
Á undanförnum árum hefur Krónan markvisst byggt upp þjónustu við landsbyggðina með snjöllum lausnum og geta nú rúmlega 70 þúsund íbúar um land allt pantað matvöru í gegnum Krónuappið og vef Krónunnar.

