DFS.is tók nýlega viðtal við Svanhildi Ólafsdóttur, formann Krabbameinsfélags Árnessýslu.
Svanhildur er 46 ára og er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum. Svanhildur hefur þó búið á Selfossi í 36 ár og er búsett þar í dag með eiginmanni sínum og fimm börnum.
Svanhildur er menntaður félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur. Hún hefur einnig bætt við sig námi í áfallameðferð. Svanhildur starfar sem teymisstjóri hjá Geðheilsuteymi HSU og hefur starfað þar síðan í ágúst 2019. Svanhildur hefur alla sína starfsævi unnið með fólki og segir hún að þar liggi áhugasvið hennar. „Ég hef áhuga á fólki og öllu sem tengist hverjum einstakling. Mér finnst saga hvers og eins áhugaverð enda eru allir með svo einstaka sögu,“ segir Svanhildur.
Árið 2015 greindist Svanhildur með brjóstakrabbamein. Hún var 36 ára á þeim tíma. Svanhildur fór í fleygskurð og í kjölfarið í stranga lyfjameðferð og fjölmarga geisla. Meðferðin stóð yfir í um átta mánuði og hafði flestar af aðgengustu aukaverkunum í för með sér. Rúmu hálfu ári eftir að meðferð lauk, fann Svanhildur hnút í sama brjósti og áður. Í ljós kom að meðferðin sem Svanhildur hafði lokið, dugði ekki til að fjarlægja krabbameinið til fulls og eftir lifði mein sem þörf var að meðferða. Svanhildur gekkst þá undir brjóstnám og áframhaldandi lyfjameðferð í kjölfarið.
Í dag er Svanhildur útskrifuð úr eftirliti og við góða heilsu. Svanhildur segist vera afar þakklát fyrir að hafa haft orku og heilsu á meðferðartímanum til að geta haldið áfram að vinna og stunda hreyfingu. „Mér fannst mjög mikilvægt að vera ekki krabbameinssjúklingur í 100% starfi.“ Henni fannst mikilvægt fyrir sig sjálfa að halda rútínu og tengslum við vinnu og félagslíf, en að það sé mjög persónubundið hvernig heilsa hvers og eins er í gegnum ferlið.

Krabbameinfélag Árnessýslu stanslaust að þróast
Svanhildur kynntist Krabbameinsfélagi Árnessýslu undir lok fyrri meðferðarinnar árið 2016. Hún mætti á nokkra opna fundi og ekki leið á löngu þar til hún bauð sig fram til formanns félagsins þar sem hún var kosin og hefur hlotið endurkjör á tveggja ára fresti síðan.
Krabbameinsfélag Árnessýslu hefur þróast heilmikið í gegnum árin og heldur áfram að gera svo. Árið 2016, þegar ég kom inn í félagið, var það með aðsetur hjá Rauða krossinum á Selfossi, þar sem félagið fékk afnot af salnum nokkrum sinnum í mánuði. Með árunum var alltaf verið að auka þjónustu og félagsmenn hittust oftar. „Með aukinni þátttöku félagsmanna og öflugu sjálfboðastarfi innan félagsins, fundum við eldmóð hjá okkur til að efla þjónustuna í heimabyggð við okkar félagsmenn“
Árið 2020 tók félagið þá stóru ákvörðun að flytja í sína eigin félagsaðstöðu með það að markmiði að gera félagið sýnilegra og jafnframt aðgengilegra fyrir þá sem þurfa á því að halda. Það verkefni var stórt skref innan félagsins og ekki síður krefjandi þar sem fjármagn var af skornum skammti. Félagið naut velvilja og aðstoðar frá fyrirtækjum á svæðinu til að láta það markmið ganga upp. „Það verkefni gekk svo vel að við höfðum fjármagn til að leigja húsnæðið á Eyravegi 31, þar sem félagið hefur aðstöðu í dag. Með okkar eigin félagsaðstöðu og auknum sýnileika í samfélaginu hafa möguleikarnir á að bæta þjónustu og stækka verið óendanlegir“ Svanhildur segir fyrirtækin sem komu að verkefninu, eiga heiður og þakkir skilið fyrir aðstoðina.
Eitthvað fyrir alla
Svanhildur segir félagið miða að andlegri, líkamlegri og félagslegri endurhæfingu. „Hér erum við ekki alltaf að tala um krabbamein, ég hugsa að við séum eiginlega minnst að tala um krabbamein.“ Svanhildur segir félagið leggja mikla áherslu á félagsleg samskipti og stuðning. Fólk sem sækir þjónustu er bæði nýgreint, í meðferð eða hefur lokið meðferð og sumir luku meðferð fyrir löngu síðan. Svo eru aðstandendur alltaf velkomnir og reynir félagið að bjóða upp á fræðslu, námskeið og stuðning sem höfðar til allra.

Starf félagsins er fjölbreytt og kraftmikið og endalausir möguleikar í boði. Þar má nefna sálgæslu, ýmis ráðgjöf, golfnámskeiðið er vinsælt, stefnt er að dekurhelgi að Sólheimum, boðið er upp á jóga nidra, fyrirlestra og fjölskyldustundir auk þess sem félagið heldur úti öflugri endurhæfingu í góðu samstarfi við Sjúkraþjálfun Selfoss. Svo má ekki gleyma hinu árlega Bleika boði, stærsta fjáröflunarviðburði félagsins. Bleika boðið er ávallt haldið í október í tilefni af Bleikum október og fór fram þann 10. október sl. á Hótel Selfoss. Viðburðurinn er mikilvægur fjáröflunarliður í starfi félagsins og er vert að nefna að Hótel Selfoss hefur hýst viðburðinn síðustu sex ár, félaginu að kostnaðarlausu. Einnig koma fjölmargir sjálfboðaliðar að viðburðinum auk þess sem skemmtikraftar leggja jafna viðburðinum lið án þess að taka greiðslu fyrir.
Svanhildur segist finna vel fyrir því hvað fólk er tilbúið að taka þátt og aðstoða við að styrkja félagið. „Þetta málefni snertir svo ótrúlega marga að það eru allir tilbúnir að taka þátt, ég er afar þakklát fyrir það,“ segir Svanhildur.
Þó að mjög margir sæki sér þjónustu hjá félaginu í dag og Krabbameinsfélag Árnessýslu sé orðið eitt af öflugustu aðildafélögum Krabbameinsfélags Íslands á landsbyggðinni þá segir Svanhildur sig upplifa félagsmenn sem eina stóra fjölskyldu. „Ég veit að ég er ekki ein þegar ég segi að hér hefur orðið til gríðarlega dýrmæt vinátta,“ segir Svanhildur.

Nærtæk þjónusta við HSU
Mikilvægur þáttur starfseminnar er samstarf við krabbameinsdeild hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands sem tók til starfa 2019. Með þessu samstarfi býðst nýgreindum einstaklingum símtal frá félaginu þar sem kynning á starfseminni fer fram auk hvatningar til að þiggja þjónustu. Svanhildur segir það geta verið erfitt skref að biðja um hjálp. „Fólk er líklegra til að mæta og þiggja þjónustu félagsins, ef það hefur fengið boð í stað þess að þurfa að bera sig eftir því sjálft. Þetta samstarf hefur auðveldað fjölmörgum félagsmönnum að stíga inn fyrir þröskuldinn hjá okkur.“
Svanhildi finnst mikilvægt að þeir sem greinast með krabbamein, hefji sína andlegu, líkamlegu og félagslegu endurhæfingu samhliða læknisfræðilegri meðferð. „Stundum hefur þessu verið skipt, að áhersla sé lögð á læknisfræðilega meðferð og svo hefst vinna með andlega þáttinn. Við viljum að þetta gerist á sama tíma.“ Svanhildur segir það vera mikið áfall að greinast og að það sé mikilvægt að vinna í andlegu heilsunni strax og maður greinist.
Framtíð félagsins
Svanhildur segir alltaf vera hægt að gera gott, betur. Framundan sér Svanhildur tækifæri til að stíga betur inn í forvarnarstarf. „Ég vil vekja samfélagið betur til umhugsunar um forvarnir, það er margt sem að við getum gert sem einstaklingar til þess að minnka líkurnar á því að greinast með krabbamein,“ segir Svanhildur. Hún segir félagið einnig vilja auka bæði karlastarfið innan félagsins, stuðning við ungmenni sem greinast með krabbamein sem og að mæta þörfum aðstandenda. Svanhildur segir tækifærin til að mæta þörfum fólks vera endalaus því þarfirnar séu ólíkar.
Að lokum segist Svanhildur vona að allir sem finni hjá sér þörf fyrir stuðning, leyfi sér að þiggja hann hjá félaginu. Svanhildur hefur fundið fyrir að margir hafi átt erfitt með að stíga fyrstu skrefin inn í félagið. „Það virðist stundum vera svo að fólk sem greinist með krabbamein, upplifi sig ekki hafa rétt eða aðgang inn í félagið af því að það kannski veiktist ekki eins mikið og aðrir eða þurfti vægari læknisfræðilega meðferð.“ Svanhildur segist vilja að krabbameinsfélagið sé sterkur hlekkur í bataferli þeirra einstaklinga og fjölskyldna sem takast á við krabbamein. „Framtíðar markmið mín fyrir Krabbameinsfélag Árnessýslu er að hér sé lifandi samfélag þar sem fólk finnur að það tilheyri og upplifi traust, samhug og vináttu.“
Bleik viðtöl:
Sjá grein:Aðstandendur eiga líka rétt á aðstoð Sjá grein:
Að lifa lífinu, lifandi Sjá grein:
Ekki lengur skipstjórinn
SEG

