2.9 C
Selfoss

Sunnlenskur tónblær

Vinsælast

Það er ekki á hverjum degi sem tækifæri gefst til að hlýða á klassíska tónleika í Mýrdalnum. Tónlist hefur einstakan mátt til að tengja saman fólk og hreyfa við tilfinningum þeirra, sérstaklega í samfélögum þar sem slíkar menningarupplifanir eru sjaldgæfar. Tónleikar af þessu tagi gerir fólk hamingjusamara – því að hlusta á lifandi flutning á verkum eftir Bach, Mozart eða Rachmaninov í fyrsta sinn getur verið ógleymanleg upplifun.

Tónleikaröðin Sunnlenskur tónblær í Vík er frábært dæmi um hvernig tónlist getur haft djúpstæð áhrif á menningu og samfélag. Fyrstu tónleikarnir í röðinni á þessu hausti voru haldnir á Regnbogahátíðinni í sal Tónskólans, þar sem Einar Bjartur Egilsson flutti ljúfa og dramatíska píanótóna eftir Chopin, Shubert og sjálfan sig á flygil.  Að tónleikunum loknum sagði Helga Þorbergsdóttir þegar hún var spurð hvernig henni hefði fundist þeir: „Mér fannst þeir yndislegir. Það er ómetanlegt fyrir okkur að fá tónleika af þessum gæðum hingað heim til okkar. Það var magnað að finna hvernig hjörtu okkar í þessum litla tónleikasal Tónskólans slógu í takt.“

Næstu tónleikar í röðinni verða 30. október kl. 17:30 í Víkurkirkju, þar sem Jón Bjarnason, dómorganisti í Skálholtskirkju, og Alexandra Chernyshova, sópransöngkona og tónskólastjóri í Vík, flytja verk fyrir orgel og sópran. Á efnisskránni eru þekktar klassískar kirkjuperlur og önnur falleg tónverk.
Stemningin verður hugljúf og notaleg, tilvalið tækifæri til að taka rúnt til Víkur í Mýrdal og njóta kvölds í fallegu umhverfi og tónlist.

Nýjar fréttir