Nú má bæjarstjórn Hveragerðis fara að gæta sín og stíga varlega til jarðar. Fram undan er lokahnykkurinn á aðalskipulagi bæjarfélagsins. Síðustu 3 ár hefur það verið í vinnslu og að venju er framlagningin, og staðfestingin, hápunkturinn í skipulagsmálum Hveragerðis. Búið er að verja miklum fjármunum og tíma hjá skipulagsnefnd og ráðgjöfum í nýja útgáfu þess. Bæjarmeirihlutinn ætlar að hreykja sér af niðurstöðunni. Það er að venju ávallt gert rétt fyrir lok kjörtímabilsins sem rós í hnappagatið fyrir snilldina. Það mun ekki rætast í þessu tilviki því engin er snilldin, aðeins klúður og afglöp.
Nú eru óveðurský á himni því tillaga skipulagsnefndarinnar og ráðgjafa er einstaklega slæm fyrir Hveragerði og samfélagið. Öll tillagan eins og hún leggur sig er ónothæf og án efa ekki verið ódýr. Tillagan hefur verið kynnt almenningi, eins og lög gera ráð fyrir, og undirritaður gagnrýnt hana í greinum í Dagskránni 31. júlí og 4. september sl. Tillagan er algjört skemmdarverk, óhagkvæm og fyrir hagsmuni Hveragerðis. Í tæp þrjú ár hefur undirritaður bent á galla aðalskipulagsins og lausn þess án nokkurs árangurs. Gallarnir eru svo augljósir að allir sjá þá án ábendingar. Engin snilld, aðeins afglöp. Þetta skipulagsklúður verður örugglega banabiti meirihlutans við næstu kosningar. Engum kjörnum fulltrúa ætti að líðast að valda slíkum skaða á bæjarfélagi sínu.
Sjá grein:Stórt skipulagsslys framundan í Hveragerði Sjá grein:
Aðalskipulagsslysið í Hveragerði – Skipulagssýn
Bæjarstjórnin fer með skipulagsvaldið og ber því fulla ábyrgð á aðalskipulaginu. Hún getur ekki skýlt sér á bak við skipulagsnefndina, því nefndin er valdalaus. Skipulagsnefndinni er falið að vinna að skipulaginu og hefur sér til fulltingis ráðgjafa. Niðurstaðan er skelfileg fyrir meirihlutann, en allra verst og óbætanleg fyrir Hveragerði.
Lausnin fellst í því að færa þjóðveg og háspennulínur og þá hverfa allir gallarnir. Þessu er vel lýst í Dagskránni 31. júlí. Enn fremur sjá allir með samanburði á skipulagshugmyndum í Dagskránni 4. september hvílíkt ógæfuskipulag bæjarfélagið er að bjóða Hvergerðingum. Bent var margsinnis á lausn, en aldrei hlustað. Þetta er svo alvarlegt skemmdarverk að það er mjög ólíklegt að „Okkar Hveragerði“ lifi af næstu kosningar. Þá skal kjósa fulltrúa til að stjórna bæjarfélaginu og gæta hagsmuna þess. Þá sem stjórna gegn hagsmunum þess á að losa sig við við fyrsta tækifæri, sem er ekki seinna en næstu kosningar. Flokkurinn „Okkar Hveragerði“ á ekki skilið að lifa af miðað við frammistöðuna. Hveragerði þarf líka að losa sig við alla þá sem komu nærri tillögu að Aðalskipulagi bæjarfélagsins.
Hvernig bæjarstjórn bjargar sjálfri sér er óljóst, en þeir sem eru framarlega í pólitíkinni í dag eiga örugglega ekki afturkvæmt í vor. Bæjarstjórn á þann valkost að segja af sér eða finna lausn með nýrri tillögu. Sagt var fyrir tæpum þremur árum að það væri „of seint“. Vissulega getur það verið með þessari bæjarstjórn við völd. En það er möguleiki að fresta framlagningu tillögunnar og taka upp þráðinn á næsta kjörtímabili, þá með nýrri bæjarstjórn, nýrri skipulagsnefnd og ráðgjöfum sem kunna sitt fag.
Róbert Pétursson,
Álfahvammi, Hveragerði

