Græna skóflan, viðurkenning fyrir mannvirki sem byggt hefur verið með framúrskarandi vistvænum og sjálfbærum áherslum, var afhent á Degi Grænni byggðar síðastliðinn miðvikudag.
Í ár hlaut Háteigsvegur 59 verðlaunin. Byggingin er búsetukjarni í eigu Félagsbústaða og er hönnuð af Arnhildi Pálmadóttur arkitekt. Í mati dómnefndar segir meðal annars:
Verkefnið sýndi fram á að jafnvel innan núverandi reglu- og lagaumhverfis er auðveldlega hægt að draga úr kolefnisspori og endurnýta ýmis byggingarefni samhliða alhliða hönnunargrunnreglum á farsælan hátt. Sé Háteigsvegur borin saman við sambærilega byggingu, er kolefnisspor verkefnisins um 50 prósent lægra. Háteigsvegur, leggur áherslu á aðgengi fyrir alla, hagkvæmni, notkun hágæða og heilnæmra efna, auk þess að skapa heimilislegt umhverfi.
Í ár var ný viðurkenning afhent í fyrsta skipti en Græna skóflan fyrir endurbætur er viðurkenning fyrir mannvirki sem hafa verið endurnýjuð með framúrskarandi vistvænum og sjálfbærum áherslum til að efla endurnýjun núverandi mannvirkja. Endurbótaverkefni sem hafa sannarlega sýnt fram á umhverfisvæn áhrif að framkvæmd lokinni hljóta hærra vægi. Fyrsti handhafi þessarar nýju viðurkenningar er Stöng í Þjórsárdal en í mati dómnefndar segir meðal annars:
Menningarleg og söguleg þýðing þessa mannvirkis sameinast framtíðarsýn, þegar horft er til umhverfislegra þátta sjálfbærnis og má þá nefna atriði eins og að endurnýta eins mörg byggingarefni og hluti og hægt er en núverandi burðavirki er frá 1957, hanna bygginguna þannig að auðvelt sé að taka hana niður, velja heilnæm og endurvinnanleg efni og einnig að hugsa um að draga úr orkufari í allri notkun byggingarinnar.
Verðlaunin voru afhent á þéttsetinni árlegri ráðstefnu Grænni byggðar, þar sem þátttakendur hlustuðu á fyrirlestra um hina ýmsu þætti vistvæns byggingariðnaðs og pallborðsumræður um vellíðan notenda í byggðu umhverfi.

