2.9 C
Selfoss

Fjárlitasýning í Árbæjarhjáleigu

Vinsælast

Um þrjú hundrað manns voru mætt í reiðhöllina í Árbæjarhjáleigu á sunnudaginn var, þar stóð Fjárræktarfélagið Litur fyrir sinni tuttugustu sýningu og ríkti stemning í höllinni. Formaður félagsins Guðlaugur H. Kristmundsson á Lækjarbotnum setti hátíðina og tóku þá við stjórninni þau Kristinn Guðnason og Marjolijn Tiepen. Mættir voru dómararnir Jón Vilmundarson og Vignir Siggeirsson.

Dómar fóru fram í reiðhöllinni þar sem fjáreigendur sátu í hring á stólum og héldu hver í sína kind. Áhorfendur fylltu höllina og fylgdust með framvindunni. Liturinn vóg helming á móti sköpulagi og dómararnir voru verki sínu vaxnir og Kristinn kóngur Guðnason lýsti með tilþrifum framvindunni. Ungt fólk og börn settu mikinn svip á hátíðina og eftirvæntingin var mikil.

Besta gimbrin var valinn og þar vann gimbur frá Halldóru og Sigurjóni í Fellsmúla. Besti hrúturinn var í eigu hins unga Sigurðar Kristins Eiríkssonar, tveggja ára sauðfjárbónda í Árbæjarhjáleigu. Athyglisverðasta ærin með afkvæmum var í eigu Helga og Regulu í Austvaðsholti. Hákon Kristinsson frá Selási átti athyglisverðasta lambið að mati áhorfenda. Að lokum var flekkótt gimbur frá Austvaðsholti sem þau Helgi og Regula gáfu félaginu boðin upp. Kristinn kunni þá list að gera uppboðið spennandi og var gimbrin að lokum slegin Guðna Ágústssyni á 120 þúsund krónur. Guðni færði strax Heklu Katharínu hana að gjöf sem þakklætisvott fyrir framlag bónda hennar Eiríks Vilhelms Sigurðarsonar. En Eiríkur Vilhelm var framkvæmdastjóri Njáluvöku en þar stóð hann sig einstaklega vel. Guðni gaf hinni flekkóttu gimbur nafnið Njála. Og að lokum var hrópað ferfalt húrra fyrir sauðkindinni. Stórkostlegur sunnudagur sem segir allt um hverslags gleði fylgir sauðkindinni.

Yfirlit yfir litafjölbreytileikann í gimbrahópnum. Mynd: Páll Imsland.
Dómarar sýningarinnar og ritari þeirra og þulur. Mynd: Páll Imsland.
Besta ærin með afkvæmum á sýningunni ásamt eigendum sínum. Mynd: Páll Imsland.
Litfegurstu lömbin á sýningunni valin af áhorfendum. Mynd: Páll Imsland.
Besta gimbrin á sýningunni ásamt eiganda sínum. Mynd: Páll Imsland.
Guðni Ágústsson bauð hæst í gimbrina en gaf hana viðstöðulaust Heklu Katarínu Kristinsdóttur. Mynd: Páll Imsland.
Þátttaka barna og unglinga í sýningunni og sýningarstörfum var mikil. Mynd: Páll Imsland.
Njála, uppboðsgimbrin fallega og myndarlega frá Austvaðsholti. Mynd: Páll Imsland.

Nýjar fréttir