2.9 C
Selfoss

Verða leyfðir miklir þungaflutningar í gegnum Selfoss og nágrenni næstu 15 árin?

Vinsælast

Fyrirtækið Steypustöðin Materials ehf. hefur áætlun um það að hefja útflutning á vikri úr Búrfellshólma við Búrfell í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Fyrirtækið er systurfyrirtæki Steypustöðvarinnar ehf. og  var stofnað árið 2023.

Þann 4. nóvember 2024 lagði framkvæmdaaðili þessara þungaflutninga fram Umhverfismatsskýrslu um Vikurnám á Búrfellshólma, til kynningar og athugunar hjá Skipulagsstofnun. Skipulagsstofnun leitaði umsagnar hjá ýmsum aðilum og kynnti hana almenningi á Skiplagsgátt frá 13. desember 2024 til 30. janúar 2025, þar sem hagsmunaaðilar og aðrir gátu komið með athugasemdir. Þann 31. mars sl. lagði skipulagsstofnun fram sitt álit á umhverfismati þessarar framkvæmdar, sjá mál nr. 830/2025 í skiplagsgatt.is. Þar er líka að finna umsagnir ýmissa aðila eins og t.d. Vegagerðarinnar.

Samkvæmt umhverfismatsskýrslu fyrirtækisins á að aka vikrinum frá upptökustað, úr Búrfellshólma, eftir Þjórsárdalsvegi (32), áfram eftir Skeiða- og Hrunamannavegi (30), eftir Hringveginum (1), í gegnum Selfoss,eftir Eyrarbakkavegi (34), Þorlákshafnarvegi (38), Suðurstrandarvegi (427) og loks upp eftir Krísuvíkurveg (42) og að Vatnsskarðsnámu sunnan við Hafnarfjörð þar sem vinna á efnið frekar áður en það er flutt út með skipum.

Heildarakstursleiðin, fram og til baka, er um 300 km löng. Fyrirtækið áætlar að eknar verði 12 – 13 ferðir fulllestaðra vörubíla á dagvinnutíma, sex daga vikunnar á tímabilinu apríl – nóvember næstu 10 – 15 árin. Þetta samsvarar því að á hverju korteri yfir daginn sex daga vikunnar keyri flutningabíll, annað hvort tómur eða hlaðinn, í gegnum Selfoss.

Þá leggur fyrirtækið það líka til að í staðinn fyrir það að keyra í gegnum Selfoss verði beygt inn á Gaulverjabæjarveg (33), síðan eftir Votmúlaveg (310) og þaðan inn á Eyrarbakkaveg (34).

Vankantar verkefnisins

Í umsögn Vegagerðarinnar sem liggur inn á Skipulagsgáttinni (mál nr. 830/2025) kemur m.a. fram að niðurbrot vega af fulllestuðum vörubíl samsvari niðurbroti af um 10,000 fólksbílum og nær niðurbrotið langt niður í vegbygginguna.

Samkvæmt styrkleika mælingum Vegagerðarinnar á árunum 2017–2024 þá hefur stór hluti þessara vega ekki nægilega burðargetu fyrir slíka þungaflutninga og sumir þeirra eru líka ekki nægjanlega breiðirsamkvæmt veghönnunarreglum fyrir slíka þungaflutninga. Þetta á við um langa kafla eftirfarandi vega: Þjórsárdalsveg (32), Skeiða- og Hrunamannaveg (30), Gaulverjabæjarveg (33), Votmúlaveg (310), Þorlákshafnarveg (38), Suðurstrandarveg (427) og Krísuvíkurveg (42). Slíkir þungaflutningar um vegi, sem hafa ekki nægjanlega burðargetu, leiðir af sér verri og hættulegri vegi, þar sem akstursrásir þeirra á yfirborði þeirra munu dýpka, fleiri og stærri holur myndast og stórar dældir myndast. Þetta mun leiða af sér hærri slysatíðni og þar af leiðandi vinna gegn markmiðum gildandi Umferðaröryggisáætlunar stjórnvalda 2024 – 2038. Markmið hennar er að auka öryggi vega og fækka þar með umferðarslysum en öryggisáætlunin er samstarfsverkefni eftirfarandi aðila: Vegagerðarinnar, Innviðaráðuneytis, Samgöngustofu og Ríkislögreglustofu.

Hugmyndir fyrirtækisins um að þungaflutningarnir fari framhjá Selfossi með því að keyra eftir Gaulverjabæjarveg (33), beygja inna á Votmúlaveg (310) og þar inn á Eyrarbakkaveg (34) virðast ekki ganga upp, þar sem bæði Gaulverjabæjarvegur (33) og Votmúlavegur (310) hafa ekki þann vegburð sem þarf fyrir slíka þungaflutninga og eru auk þess ekki nægilega breiðir fyrir slíka flutninga. Þess vegna mun akstursleiðin væntanlega liggja í gegnum Selfoss.

Þá hefur komið fram að þungaflutningarnir þurfi að fara yfir þrjár einbreiðar brýr í Þjósárdal og að sækja þurfi um undanþágu til Samgöngustofu til þess að fara yfir þær. Slík undanþága er ætluð einstökum þungaflutningabílum, en ekki reglulegri umferð þungabíla sex daga vikunnar í 10 – 15 ár. Ef til þess kemur að þessi flutningur fari fram á umræddum vegum, þá verður Vegagerðin einfaldlega að byggja þrjár nýjar brýr sem standast burðarþörf þessarar umfangsmiklu þungaflutninga.

Niðurstaða

Þó að vegir í væntanlegri aksturleið þungaflutninganna hafi ekki nægjanlegan burð og breidd fyrir þessa þungaflutninga samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar, þá hefur hún ekki tekið afgerandi afstöðu gegn þessum flutningum, sjá nánar umsögn hennar í máli nr. 830/2025 í Skipulagsgátt.

Slíkir þungaflutningar í gegnum Selfoss, fara alls ekki saman við um 10,000 manna íbúðabyggð á Selfossi, þar sem krakkar eru að ganga eða að hjóla á milli áfangastaða. Ekki aðeins vegna þess að dýpri akstursrásir myndast á vegyfirborði, heldur munu fleiri og stærri holur myndast í vegum og stórar dældir munu myndast vegna niðurbrots klæðningar og undirbyggingar, heldur líka vegna þess að hér er um að ræða stóra vörubíla þar sem útsýni ökumanns er takmarkaðra og stöðvunar-vegalengd þeirra mun lengri en fyrir venjulega fólksbíla. Eitt slys verður einu slysi of mikið. Þá er það spurning hvort sveitarfélagið Árborg ætli ekki að bregðast við þessari fyrirætlun á afgerandi hátt?  Þessir þungaflutningar verða hvorki bæjarfélaginu né nágrenni til framdráttar þar sem þeir munu hafa neikvæð áhrif á búsetu í bænum og verslun- og þjónustu bæjarins við nágranna byggðir.

Vegna þessarar framkvæmdar þá er auglýsing á breyttu aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps í skipulagsgáttinni hjá Skipulagsstofnuninni eða eftirfarandi auglýsing: Búrfellshómi, Búrfell; Nýtt efnistökusvæði; Aðalskipulagsbreyting – 2406006. Þetta er mál nr. 836/2024 í Skipulagsgáttinni. Þar er óskað eftir umsögnum hagsmunaaðila eins og t.d. Vegagerðarinnar en þar geta einstaklingar líka komið með athugasemdir við þessa fyrirætlan til stjórnvalda. En athugasemdum þarf að setja inn á Skipulagsgáttina í síðasta lagi þann 7. nóvember n.k.

Aldís Sigfúsdóttir,
verkfræðingur

Nýjar fréttir