Nú er bleikur október hafinn. Í tilefni þess náði DFS.is tali við Sædísi Ósk Harðardóttur sem er 53 ára baráttukona gegn brjóstakrabbameini. Sædís er búsett á Eyrabakka. Hún er gift og á fjögur börn, ásamt fjórum stjúpdætrum.
Sædís Ósk hefur alltaf verið dugleg að halda sjálfri sér uppteknri. Hún er með meistaragráðu í sérkennslu og starfaði í mörg ár sem deildarstjóri við Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri og síðar við Sunnulækjarskóla. Sædís hefur að auki tekið að sér mörg önnur verkefni og félagsstörf. Hún er formaður félags sérkennara á Íslandi og hefur líka verið að starfa í liðveislu. Sædís segir að daglegt líf hafi verið mjög erilsamt og mikið að gera.
Í frítíma sínum elskar Sædís að ferðast, hvort sem það er innanlands eða erlendis, njóta náttúrunnar, fara í gönguferðir, fara á tónleika eða í leikhús og vera með fjölskyldunni, einkum barnabörnunum sínum.
Heppni að hafa ekki hunsað skimun
Í lok október 2018 fer Sædís í sína reglulegu brjóstaskimun sem var þá á tveggja ára fresti. Sædís segir það sé ótrúlega mikilvægt að konur fari þegar þeim er boðað í brjóstaskimun.
„Það er svo skrítið hvað maður man sumt. Ég er stödd með dóttur minni á tannlæknastofu þegar ég missi af símtali frá Krabbameinsfélaginu. Það fyrsta sem ég hugsa er: Já, ókei það er komið að mér,“ segir Sædís þegar hún lýsir deginum sem hún greindist í nóvember 2018.
Fljótlega lá fyrir að um illkynja og mjög hraðvaxandi tegund brjóstakrabbameins var að ræða. Sædís segir það hafa verið heppni að þetta uppgötvaðist svona snemma. Á þessum tveimur mánuðum milli myndatöku og aðgerðar hafði það þegar stækkað töluvert. Hefði Sædís beðið með að fara í skimunina, hefði þetta getað farið verr.
Upp hófst langt ferli af sýnatökum og rannsóknum hjá Sædísi. „Mér fannst ég vera komin í einhvern bát þar sem ég er ekki lengur skipstjóri heldur bara farþegi. Ég fékk bara símtöl hvert ég ætti að mæta og hvenær. Maður var strax gripinn og leiddur í gegnum þetta allt saman,“ Sædís lýsir því að hún hafi fundið fyrir miklu öryggi og góðu utanumhaldi hjá krabbameinsdeild Landsspítalans.
Aðgerðin fór fram rétt fyrir jól 2018 og hélt Sædís jólin heima með fjölskyldu. Vinkonur hennar komu í heimsókn og tóku heimilið í gegn fyrir jólin og synir Sædísar elduðu jólamatinn. „Þannig við náðum alveg að halda jólaandanum, það var ofboðslega yndislegt og fallegt.“
Í kjölfarið tók við lyfjameðferð, geislameðferð og önnur lyfjameðferð sem stóð yfir í nokkur ár. Hún segir heilbrigðiskerfið hafa verið styrkt stoð, þar sem hún upplifði öryggi og utanumhald.
„Meira áfall fyrir fólkið mitt en mig“
Þó að greiningin hafi verið mikið áfall fyrir Sædísi segir hún þetta hafa verið mun meira áfall fyrir fjölskylduna sína. „Þau höfðu miklu meiri áhyggjur og gátu svo lítið gert, þau þurftu bara að fylgjast með, horfa á, hafa áhyggjur og vita ekki neitt,“ Sædísi finnst mikilvægt að hlúa að aðstandendum á svona tímum.

Sædís segir sig sjálfa alltaf hafa getað tekist á við veikindin með jákvæðni og húmor. „Ég rakaði af mér hárið og ég náði að djóka með að það væri flott því það væri að koma lúsatímabil í skólanum, engin hætta fyrir mig á að fá lús,“ segir Sædís hlæjandi. Sædís leit ekki á ferlið sem veikindi heldur eitt stórt verkefni sem hún ætlaði að sigra og koma enn sterkari út.
Meðferðin tók verulega á að sögn Sædísar, bæði líkamlega og andlega. Það reyndist henni þó erfiðast að geta ekki verið til staðar fyrir dóttur sína, sem var 7 ára, þá eins og hana langaði. Sædís segist þó hafa verið með afar gott lið að baki sér og margir tilbúnir að aðstoða. Á svipuðum tíma var eldri dóttir Sædísar að tilkynna að hún væri ófrísk og segir Sædís það einnig hafa verið erfitt að geta ekki verið eins til staðar fyrir hana. „Mér fannst ég alltaf vera að bregðast, ég var að reyna að gera eins og ég gat en það var erfiðast.“
Þakklát fyrir Krabbameinsfélag Árnessýslu
Sædís kynnist stuðningshópnum innan krabbameinsfélagsins Brosið stuttlega eftir að hún greinist. Sædís mætir á fund hjá félaginu og segist hafa hitt þar frábærar konur sem höfðu verið að ganga í gegnum svipaða reynslu. „Það var svo ljúft að heyra í þeim tala og voru margar búnar að yfirstíga sína baráttu og komnar á góðan stað. Ég kynntist þarna góðum félagsskap sem ég gat tengt við,“ Sædís lýsir að það sé góður andi og fræðsla sem hægt er að fá.
Sædís er ennþá í miklu sambandi við konurnar sem hún kynntist í gegnum félagið. „Þetta er mjög öflugt félag og er að gera svo marga góða hluti fyrir bara fólk hérna á svæðinu, því þetta er stórt svæði og svo gott að hafa þetta hérna. Það er svo mikil fræðsla í gangi, stjórnin er mjög dugleg að vera með alls konar viðburði, fræðslu og námskeið, og það er til svona endurhæfingarhópur sem var ekki til þegar ég greindist. Og það er svo frábær stuðningur sem félagið fær frá samfélaginu, fyrirtækin eru svo dugleg að styrkja og efa til félagsins og standa með því, það gerir svo mikið.“
Nýtt viðhorf
Sædísi finnst mikilvægt að hver og einn nýti hvern dag því maður veit aldrei hvernig fer. „Lífið er núna eins og slagorðið segir,“ segir Sædís. Henni finnst að maður eigi að umkringja sig fólkinu sem manni þykir vænt um og að hún sé mest að einbeita sér að því í dag. Sædís vill halda áfram að ferðast, ekki hika eða bíða þar til seinna því þú veist aldrei hvort þetta seinna verði. „Við eigum daginn í dag og gærdeginum getum við ekki breytt, og við vitum ekkert hvað er framundan þannig við þurfum svolítið bara að horfa á núið og njóta.“

Sædís vill að allir í þeirri stöðu sem hún var í fyrir um 7 árum leiti stuðnings og sé óhrætt við að viðurkenna þörfina á aðstoð. Hún bendir einnig á að fjölskylda og aðstandendur leiti sér aðstoð.
„Það er alltaf einhver að ganga í gegnum það sama og þú og maður er aldrei einn. Að deila reynslu og líðan og nota þetta tengslanet sem við fáum.“ Hún hvetur einstaklinga í sömu stöðu að kynna sér starfsemi krabbameinsfélags í grennd.
SEG

