Nú stendur yfir Vika einamanaleikans, samstarfsverkefni Kvenfélagasambands Íslands og kvenfélaganna í landinu og er þetta átaksverkefni til að sporna við einsemd og einmanaleika. Á okkar starfssvæði í Árnes- og Rangárvallasýslu eru þó nokkur kvenfélög búin að skipuleggja viðburði þessu tengda og eru það mjög ólíkir viðburðir, en eiga það allir sameiginlegt að vera opnir fyrir alla og hvetja til samveru. Alla viðburði er hægt að sjá inni á vefsíðunni vikaeinmanaleikans.is. Það er vaxandi einmanaleiki í landinu og þarf að sporna við því á allan hátt. Við megum ekki gleyma fólkinu okkar, foreldrum, ömmum og öfum eða frænku og frænda þó það geti ekki verið með okkur alla daga, það er til dæmis mjög einfalt að taka upp símann og hringja, við erum hvort sem er með símann í höndunum alla daga, en fyrir þann sem er einmana þá getur þetta símtal skipt sköpum, þó enn betra væri að fara í heimsókn.
Tilefni þessara skrifa minna er að nú er nýlokið orlofi húsmæðra í Árnes- og Rangárvallasýslu, en það var haldið á Hótel Örk eins og mörg síðustu ár. Það eru konur úr kvenfélögunum sem mynda orlofsnefndir sem skipuleggja þessa orlofsviku og standa þær sig allar frábærlega í því verkefni. Orlof húsmæðra er fyrir allar konur og þarna koma saman að jafnaði um 90 konur árlega og eiga í miklum samskiptum. Vinkonur fara saman, en svo eru sumar líka einar og fara til að eiga í samskiptum við aðrar frábærar og skemmtilegar konur og efla tengslanet með því að kynnast nýjum konum, stundum er þetta það eina sem konur gera fyrir sig sjálfar og eiga það fyllilega skilið. Ef eitthvað getur komið í veg fyrir einmanaleika þá er það að eiga samverustund með nýjum og gömlum vinkonum, þetta er svo mikilvægt.
Í þessari orlofsviku fengu konur fyrirlestur um einmanaleika og komust þær margar við, því birtingarmyndir einmanaleika eru svo margar og ólíkar, en það væri of langt að telja það allt upp. Þá spila þær bingó, sjá tískusýningu, gera handvinnu, spjalla saman, segja brandara og hlæja saman, fara í dagsferð, í heita pottinn og fleira og fleira, sem allt stuðlar að samveru og samskiptum. Orlof húsmæðra stendur frá sunnudegi til fimmtudags og síðasta kvöldið er svo hátíðarkvöldverður, fjöldasöngur og dansað við undirleik góðs hljóðfæraleikara og söngvara. Það er almenn ánægja með þessa orlofsviku og ef eitthvað er liður í að koma í veg fyrir einsemd og einamanaleika þá er það halda orlof húsmæðra. Það er engum blöðum um það að fletta að þetta styður svo sannarlega við að halda góðri lýðheilsu, því einmanaleiki hefur mikil og neikvæð áhrif á heilsu okkar. Rafræn samskipti koma ekki í veg fyrir einmanaleika, öll þurfum við hlýju, faðmlag og annað fólk til að líða vel. Setjum okkur það markmið að fara í heimsókn til þeirra sem við höfum ekki verið í samskiptum við lengi. Eitt lítið skref sem skiptir svo miklu máli.
Sólveig Þórðardóttir,
formaður Sambands sunnlenskra kvenna

