Fyrstabekkjarnemendur í umhverfis- og vistfræði í Menntaskólanum að Laugarvatni lögðu land undir fót mánudaginn 29. september þegar þeir héldu til Þingvalla ásamt kennurum sínum, þeim Jónu Björk og Margréti Elínu.
Markmið ferðarinnar var að kynnast þjóðgarðinum, sjá urriðann í Öxará og fræðast um þjónustuna og þær áskoranir sem fylgja verndun svæðisins. Þrátt fyrir grenjandi rigningu, rok og þoku sem huldi fjallasýnina, nutu nemendur fegurðar haustsins þar sem litadýrð lággróðursins skar sig úr.
Mikil ánægja var meðal hópsins þegar sjálfur Guðni Th. Jóhannesson, fyrrverandi forseti Íslands, tók á móti þeim og fræddi nemendur um sögu Þingvalla með sinni alkunnu snilld. Honum til halds og trausts var Torfi Stefán Jónsson, fræðslufulltrúi þjóðgarðsins, sem bætti við fróðleik um náttúruna og sögu mannlífsins á svæðinu.
Ferðin leiddi nemendur meðal annars að Peningagjá, yfir Öxará þar sem stóri urriðinn lét sjá sig, og áfram að Drekkingarhyl í Almannagjá þar sem refsingar liðinna alda voru rifjaðar upp. Í lok ferðar var farið í gestastofuna þar sem hópurinn fékk fræðslu um vatnasvið Þingvallavatns, innviðauppbyggingu og verndun þjóðgarðsins vegna álags frá vaxandi fjölda ferðamanna.
„Ferðin tókst í alla staði mjög vel,“ segja kennararnir Jóna Björk og Margrét Elín, sem þakka sérstaklega Guðna og Torfa fyrir leiðsögnina og Pálma fyrir öruggan rútuakstur.

