
Óskar Snorri Óskarsson er ungur og efnilegur leikari frá Hruna í Hrunamannahreppi sem er nú á sínu öðru ári í leikaranámi við Listaháskóla Íslands. Um þessar mundir er Óskar að taka þátt í leiksýningunni Jónsmessunæturdraumur sem var frumsýnd 26. september sl.
Ætlaði að verða sauðfjárbóndi
Óskar hefur haft gaman af leiklist frá því hann var ungur en bjóst aldrei við að verða leikari. „Ég hef alltaf kunnað vel við mig á sviði og byrjaði að syngja ungur og söng þá bara Villa Vill og Óðinn Valdimarsson. Sem krakki og unglingur hef ég einhvern veginn aldrei ætlað að verða leikari. Mitt helsta markmið þá var að fara í Landbúnaðarháskólann og verða sauðfjárbóndi, en það hefur alltaf verið einhver listataug í mér sem ég get ekki losað mig við,“ segir Óskar. Óskar segir að leiklistaráhuginn hafi vaxið í Flúðaskóla sem leggur mikinn metnað í leikritin bæði á unglingastigi og yngri bekkjum. „Þar fyrst fann ég fyrir þessari skrítnu tilfinningu, leikgleði!” Óskar stundaði í framhaldinu nám við Menntaskólann að Laugarvatni þar sem hann fékk ýmist að leika upp á sviði sem ýtti einungis meira undir áhugann.
Leikrit í leikriti
Óskar fékk þann heiður að taka þátt í leikritinu Jónsmessunæturdraumur eftir Shakespeare, undir leikstjórn Maríu Ellingsen, Magnúsar Thorlaciuss og Eyju Sigríðar Gunnlaugsdóttur. Tólf hæfileikaríkir og skemmtilegir leikarar mynda leikhópinn og eru margir þeirra að stíga sín fyrstu skref í atvinnuleikhúsi, m.a. Óskar. „Það má búast við alls konar fjöri á sýningunni! Mikið drama, mikil gleði og mikil ást! Það er sungið, dansað og grátið!”
„Gamanleikritið fjallar í grunninn um ástina og hvað hún getur verið flókin. Leikritið fjallar um ungt fólk sem flýr frá Aþenu í skóg þar sem álfar ráða ríkum. Álfarnir villa fyrir þeim ástina og lenda þau í alls konar klandri. Á sama tíma eru svokallaðir handverksmenn að setja upp leikrit. Þessir handverksmenn byrja að æfa leikritið úti í skógi og verða þannig hluti af öllu ástarklandrinu. Það er flókið að setja upp leikrit í leikriti.”
Óskar fer með hlutverk Belga Físilbelgjabætis, einn af handverksmönnunum sem setja upp leikrit í leikritinu. „Hann er upprennandi leikari í Aþenu en frekar feiminn og óöruggur sem gerir honum erfitt að fá mikla athygli frá leikstjóranum sínum. En það eina sem Belga langar að gera er að vera í sviðsljósinu. Kannski smá eins og ég?,” segir Óskar með bros á vör.
Æfingar fyrir sýninguna hófust í sumar og hafa staðið yfir nær daglega í rúman mánuð. „Æfingaferlið hefur gengið eins og í sögu! Þetta hefur verið ein stór skemmtiferð.“ Óskar segir hópinn vera afar samheldinn og honum þykir mjög vænt um hann. „Stundum hafa komið erfiðir tímar á æfingum en hópurinn hefur alltaf staðið saman. Svona ferli tekur mikið á tilfinningalega og líkamlega. Maður er svo mikið að spila með alls konar tilfinningar og berskjalda sig svo mikið og þá er gott að vera í sterkum hópi.”
Námið við LHÍ er í góðum farvegi
Óskar segir námið við listaháskólann ganga afar vel. „Við erum 10 í bekk og eru þau öll svo frábær. Ég hlakka til alla morgna að hitta þau! Ég er búinn að læra alveg ótrúlega margt bæði um leiklistina en líka bara um sjálfan mig. Þetta er svo mikið sjálfsskoðun. Námið getur verið ansi strembið bæði líkamlega og andlega en við bekkjarsystkinin styðjum hvort annað í gegnum öll harðindin,” segir Óskar.
Framtíðin er björt
Það sem heillar Óskar mest við að standa á sviði er frelsið sem fylgir því. „Að standa fyrir framan fólk og fá að skemmta og hreyfa við þeim er það sem fær mig til að vilja fara upp á svið aftur og aftur,“ segir Óskar.
Óskar segist ekki hafa nein sérstök markmið í sambandi við leiklistina. „Ég bara fylgi flæðinu og vonandi fæ ég að leika eitthvað og skapa. Þetta er nefnilega svo gaman að taka við allskonar verkefnum og ég hef fulla trú á því að draumahlutverkið mitt sé handan við hornið.”
Leikhópurinn verður að sýna alveg fram að jólum og hægt er að næla sér í miða á tix.is.
SEG

