Góðir gestir heimsóttu Framsókn að Eyrarvegi laugardaginn 27. september sl. Það voru Njálumennirnir Guðni Ágústsson, Lárus Ágúst Bragason, Eiríkur Vilhelm Sigurðarson og Einar Þór Guðmundsson. Tilefnið var að segja frá Njáluvökunni í Rangárþingi sem tókst með eindæmum vel. Guðni er formaður Njálufélagsins og setti fundinn með nokkrum orðum, snéri sér síðan að Einari Þór, tveggja metra manni, og kynnti hann inn sem einsöngvara úr óperuhúsum Evrópu og nú kórstjóra Karlakórs Rangæinga, af Norðurhjáleigukyni með sönginn í genunum. Guðni bað nú Einar að syngja Skarphéðin í brennunni. Þetta var einstakt upphaf að skemmtilegum fundi.
Síðan skiptust þeir félagar á að segja frá Njáluvökunni og hvernig þessi einstaki viðburður varð til. Guðni hafði gengið með þetta fóstur í mörg ár og nú hittust þeir Lárus eftir áramótin í erfidrykkju kaupfélagsstjórans Ólafs Ólafssonar og strengdu þess heit að gera alvöru úr draumum sínum. Lárus er leiðsögumaður og þekkir Njálu best allra Rangæinga og er kennari í Fjölbraut til fjörutíu ára. Þeim bar saman um að Eiríkur Vilhelm hefði reynst einstakur framkvæmdastjóri Njáluvöku en mestu skipti hlutur Svandísar Dóru Einarsdóttur leikstjóra og hún ásamt Eiríki gjörbreyttu allri uppsetningu hátíðarinnar. Eiríkur kom með tillögu um að gera íþróttahúsið á Hvolsvelli að héraðsleikhúsi og þar setti Svandís Dóra upp meistaraverkið Njáluperlur með Ingvari Sigurðssyni, Sólveigu Arnarsdóttur og Atla Rafni Sigurðarsyni. Það voru svo Karlakór Rangæinga og Öðlingarnir sem sungu svo um munaði. Nú standa vonir til að þetta leikverk úr Njálu verði sýnt í Þjóðleikhúsinu. Brennureiðin var alfarið á herðum Hermanns Árnasonar og tignarlegri reið hefur ekki farið um Rangárþing en þessir níutíu og níu brennumenn í skikkjunum rauðu. Brennukvöldið og dagskráin á Rangárbökkum, sem sjö þúsund manns upplifðu, var tilfinningarík og ógleymanleg, undir stjórn Arthúrs Björgvins Bollasonar.
Þeir Eiríkur og Lárus ræddu um framtíð Njálufélagsins og verkefnin sem nú verða sett á dagskrá félagsins eins og málþing í haust, hátíð í Rangárþingi að ári með einhverju sniði og örugglega brennureið þótt eldur verði ekki kveiktur. Það þarf að merkja sögustaði Njálu og koma upp stað þar sem hægt verði að skynja og gera sér grein fyrir sögusviðinu. Einnig að styðja við að Njálurefillinn fái sýningarhús og sýndarveruleika verði mögulega komið upp í því húsi, svipuðum og á Sauðárkróki um Örlygsstaðabardaga og Flugumýrarbrennu.
Eftir fjörugar umræður og vöffluveislu sagði Guðni Ágústsson að Njáluvakan yrði stórvirki sem myndi setja hina miklu bók Njálu á þann stað sem henni ber að vera og þannig efla ferðamennsku og fræðastarf á Suðurlandi. Síðan bað Guðni Einar Þór að ljúka fundinum með að syngja Ísland, farsældafrón, sem hann gerði með mikilli rödd einsöngvarans.
GRJ

