Í október verða tvær leiðsagnir í boði á sýninguna „Yfir beljandi fljót“ í Hússinu á Eyrarbakka. Sýningin, sem er stútfull af fróðleik og fegurð, fjallar um sögu fólks sem ferðaðist gangandi og ríðandi á tímum þegar ár og vötn klufu sveitir Árnessýslu.
Lýður Pálsson safnstjóri tekur á móti gestum sunnudaginn 5. október og Linda Ásdísardóttir sýningarstjóri sunnudaginn 19. október.
Sýningin er mjög margþætt og frá mörgu að segja. Á sýningunni er varpað ljósi á ferðamáta fólks, ferðaútbúnað, skófatnað, reiðtygi og síðast en ekki síst sjá gestir sögubrot og sagnir sem tilheyrðu þessum tíma. Margar frásagnir hverfast eðlilega um árnar í sýslunni sem voru miklir farartálmar eins og Ölfusá, Sogið, Brúará, Hvítá og Tungufljót og svo Þjórsá á sýslumörkum. Oft þurfti að fara langa króka til að komast á milli staða þar sem ófært var yfir ár, vötn og mýrar. Að vetri var oft hægt að fara yfir á ís.
Rétt fyrir aldamótin 1900 voru stærstu árnar, Ölfusá og Þjórsá, brúaðar og var það bylting sem kollvarpaði samgönguháttum og til langs tíma olli breytingum á samfélaginu í takt við allar aðrar breytingar til nútímahátta.
Báða dagana hefst leiðsögn kl. 14.00 en safnið sjálft er opið alla sunnudaga í október kl. 13–17. Ókeypis er í safnið í tilefni af Menningarmánuðinum október og sama á við um alla viðburði safnsins.
Heitt á könnunni og verið velkomin.

