2.9 C
Selfoss

Söguganga í Skálholti með Skúla Sæland

Vinsælast

Laugardaginn 20. september klukkan 14:00 verður boðið upp á sérstaka sögugöngu í Skálholti þar sem Skúli Sæland sagnfræðingur leiðir gesti um þennan merka menningarstað.

Á göngunni verður farið inn í Skálholtsdómkirkju þar sem saga kirkjunnar og áhrifamikilla biskupa er rifjuð upp. Í kjallara kirkjunnar verður litið á safn forngripa, þar á meðal steinkistu Páls Jónssonar frá árinu 1211, legsteina og minjar sem fundust við uppgröft á fimmta áratug síðustu aldar.

Einnig verður gengið um undirgöng sem tengja kirkjuna við fornleifasvæðið þar sem sagt verður frá merkilegum uppgreftri sem varpað hefur nýju ljósi á daglegt líf í Skálholti. Þá fá gestir að kynnast Þorláksbúð sem stendur á upprunalegum grunni frá 16. öld, minnisvarða um Jón Arason Hólabiskup og Þorlákssæti þar sem sögur helga Þorláks biskups verða í brennidepli.

Gangan tekur um það bil eina og hálfa klukkustund, er á jafnsléttu og hentar öllum aldurshópum. Aðgangur er ókeypis.

Sögugangan er hluti af Menningarminjadögum Minjastofnunar Íslands og verður veitingastaðurinn Hvönn opinn fyrir þá sem vilja ljúka göngunni á notalegan hátt.

Nýjar fréttir