Árborg hefur undirritað samning um jarðvinnu vegna nýrrar dælustöðvar Vatnsveitu Árborgar. Framkvæmdirnar fela í sér að grafa fyrir stöðinni, fylla undir undirstöður hússins og leggja aðkomuveg að svæðinu.
Hönnun dælustöðvarinnar er í höndum Eflu hf. Jarðvinnan verður unnin af Gröfutækni ehf., sem átti lægsta tilboðið í verðkönnun sem fram fór í ágúst síðastliðnum.
Jafnframt er verið að ljúka fullnaðarhönnun bæði á dælustöðinni og nýjum 2.000 rúmmetra vatnstanki sem bætist við þann tank sem fyrir er á svæðinu. Undirbúningur útboðs á uppsteypuhluta verksins er langt kominn og er áætlað að uppbygging hefjist árið 2026.
Byggingarstjórn og eftirlit með framkvæmdum verður í höndum Þórðar Ásmundssonar hjá Vörðu – Verkþjónustu ehf.
Þetta er mikilvægur áfangi í uppbyggingu innviða sveitarfélagsins og verður til þess fallinn að styrkja vatnsveitu Árborgar til framtíðar.
Sveitarfélagið Árborg

