Málverkið Krunk Krunk eftir Ingvar Thor Gylfason er nú til sýnis í Gallerí Listasel á Selfossi og er á uppboði til styrktar Krabbameinsfélagi Árnessýslu.
Tengja má lýsingu Ingvars á málverkinu, á ákveðinn hátt við krabbameinsferli: „Á gömlum trástofni hvílir hann sig og krunkar til þeirra í kringum sig og lætur þannig vita að hann sé í lagi. Kannski svolítið þreyttur en í lagi. Sterkir litir umvefja hann í verkinu sem gefa honum kraft til þess að þenja aftur vængi sína að hvíldinni lokinni og fljúga hærra og lengra en nokkru sinni fyrr“.
Hægt er að bjóða í málverkið fram til 11. október. Gallerí Listasel er staðsett á Brúarstræti 1, í miðbæ Selfoss, sími 860 4472.

