2.9 C
Selfoss

Vinnustofa í gervigreind og nýsköpun

Vinsælast

Háskólafélag Suðurlands kynnir vinnustofu í gervigreind og nýsköpun sem styrkt er af Lóunni og er þátttakendum að kostnaðarlausu.

Gervigreind og nýsköpun eru meðal helstu drifkrafta samfélagsins í dag. Ný tækni og skapandi hugsun breyta ekki aðeins því hvernig við vinnum, heldur einnig hvernig við hugsum, leysum vandamál og byggjum upp framtíðina. Á næstu árum mun gervigreind hafa áhrif á allt frá daglegum störfum til stórra ákvarðana í atvinnulífi og stjórnsýslu – og því skiptir máli að við séum tilbúin að tileinka okkur þekkingu og færni á þessu sviði.

Samtök þekkingasetra, KPMG og Iceland Innovation Week hafa sameinast um hringferð um landið með stuðningi úr nýsköpunarsjóðnum Lóunni. Markmiðið er að efla nýsköpun og starfræna hæfni á landsbyggðinni og bjóða upp á lifandi fræðslu og hagnýta þekkingu fyrir einstaklinga og fyrirtæki.

Fyrsta stopp er hjá Háskólafélagi Suðurlands á Selfossi þann 24. september.

KPMG mun leiða vinnustofur um hagnýtingu gervigreindar í atvinnulífinu, þar sem lögð verður áhersla á hvernig einstaklingar og fyrirtæki geta nýtt sér þessa tækni til að bæta samkeppnishæfni, skilvirkni og verðmætasköpun. Iceland Innovation Week mun sjá um vinnusmiðjur um nýsköpun, skapandi hugsun og frumkvöðlastarfsemi, með áherslu á þróun nýrra hugmynda og viðskiptaþróun.

Þetta námskeið er kjörið tækifæri fyrir alla sem vilja skilja betur hvaða áhrif gervigreind hefur á samfélagið og hvernig nýsköpun getur orðið drifkraftur framfara í atvinnulífi og nærumhverfi. Hvort sem þú ert frumkvöðull, starfsmaður eða nemandi færðu hér hagnýta innsýn, ný verkfæri og innblástur til að taka næstu skref.

Kostnaður við þátttöku í námskeiðinu er enginn, en það eru einungis 30 pláss í boði.

Upplýsingar um skráningu er hægt að finna á heimasíðu Háskólafélags Suðurlands, www.hfsu.is

Nýjar fréttir