6.2 C
Selfoss

Fjölmennt á málþingi á Kirkjubæjarklaustri

Vinsælast

Þann 28. ágúst sl. var haldið málþing á Kirkjubæjarklaustri undir yfirskriftinni „Falið í sandi og sæ”. Allt að 60 manns sóttu málþingið, góð blanda af heimamönnum og þeim sem lengra komu að. Er þeim öllum þakkað fyrir komuna og ekki síst færum við þeim fjórum fornleifafræðingum sem gáfu sér tíma til að segja frá sínum rannsóknum kærar þakkir.

Eftirtalin erindi voru flutt :

Bjarni F. Einarsson, fornleifafræðingur sem hefur stýrt fornleifarannsókn í Arfabót síðasta áratuginn nefndi sitt erindi „Á kafi í sandi og upp úr honum aftur”. Margt forvitnilegt hefur komið í ljós s.s. að kirkja og kirkjugarður hefur verið í Arfabók, þó ekki hin hefðbundna heldur að öllum líkindum svokölluð heimiliskirkja með takmörkuðum réttindum og skyldum. Áhugavert er að ekki var mikið um gripi að finna svo draga má þá ályktun að íbúar Arfabótar hafi horfið á brott með skipulögðum hætti og tekið með sér allt sitt hafurtask og aldrei snúið aftur. Í sumar fór fram síðasti hluti rannsóknarinnar og telst henni nú lokið.

Ragnar Edvardsson fornleifafræðingur hefur sérhæft sig í neðansjávarfornminjum og af erindi hans, „Þetta var gott strand”, má sjá að allt í kringum Ísland er að finna neðansjávarminjar, ekki aðeins sokkin skip heldur einnig sokkin búsetusvæði og t.a.m. hvalstöðvar. Hingað til hafa verið skráðir 1144 skipskaðar víðs vegar í kringum landið en margt bendir til þess að að minnsta kosti 3000 skip hafi farist við Ísland frá upphafi byggðar í landinu. Vegna aðstæðna við suðurströnd landsins varðveitast skipsflök þar illa vegna brims og annarra umhverfisþátta og er því mikilvægt að staðsetja þau og skrá. Við leit og staðsetningu neðansjávarminja er tæknin nýtt til hins ítrasta s.s. hljóðbylgjutækni og segulmælar sem og mynd- og ljósabúnaður auk þess sem unnið er úr rituðum heimildum.

Ragnheiður Gló Gylfadóttir, fornleifafræðingur, hefur unnið að rannsókn um náttúruvá af völdum Kötlu í Álftaveri og á Mýrdalssandi undir heitinu „Ógn og undur“. Ítarleg fornleifaskráning var unnin innan rannsóknarsvæðisins og er grundvöllur rannsóknarinnar. Alls er búið að skrá rúmlega 1000 fornleifar innan rannsóknarsvæðisins og ljóst að varðveisla á sumum svæðum er með eindæmum góð. Skv. heimildum hefur Kalta gosið 20 sinnum á sögulegum tíma og höfðu þau mikil áhrif á byggð og nýtingu lands, þ.e. afleiðingar gosanna frekar en gosin sjálf. Það væri áhugavert að sjá hvernig má nýta fornleifaskráningingar til að átta sig á staðháttum og hvaða bæir hafi farið í eyði á hverjum tíma.

Steinunn Kristjánsdóttir, fornleifafræðingur og prófessor við HÍ, sagði í erindi sínu, Nunnurnar frá Kirkjubæ – eftirmæli, frá lífi og störfum nunnanna í Kirkjubæjarklaustri sem rekið var á fjórðu öld og var annað tveggja nunnuklaustra á landinu, hitt var á Reynistað. Í klaustrinu var einkum lögð áhersla á klæðagerð fyrir kirkju og samfélag; karlarnir (munkarnir) skrifuðu en konurnar ( nunnurnar) sáu um klæðin. Flest klæðin voru innflutt nema ullin en á einum tímapunkti er talið að um 4000 fjár hafi verið á Kirkjubæ svo ekki hefur skort á hráefnið. Hör og lín var einnig notuð í klæði og talið að hörin hafi verið innflutt en línið hafi verið framleitt hér á landi. Rekstur klaustursins var farsæll þrátt fyrir áföll s.s. svartadauða og nutu þær virðingar hjá leikum og lærðum. Þær hurfu af sjónarsviðinu með siðaskiptunum um miðja 16. öld og verk þeirra með.

Við lok hvers fyrirlesturs var opnað á fyrirspurnir og sköpuðust skemmtilegar umræður milli fræðimanna og gesta en tilgangur þess að kalla til málþing sem þetta er ekki aðeins til að uppfræða heldur ekki síst til að gera fornleifarannsóknir aðgengilegar almenningi og skapa samtal á milli fræðimanna og almennings. Teljum við sem að málþinginu stóðu að þeim tilgangi hafi verið náð og gott betur.

Nýjar fréttir