Fyrsti samráðsfundur stjórna HSK, USVS og ÍBV með svæðisfulltrúum íþróttahreyfingarinnar á Suðurlandi var haldinn í Vestmannaeyjum sl. föstudag.
Fulltrúar HSK á fundinum voru Guðríður Aadnegard formaður, Helgi S. Haraldsson varaformaður, Guðmundur Jónasson gjaldkeri og Engilbert Olgeirsson framkvæmdastjóri.
Segja má að þessi fundur hafi verið sögulegur, en þetta er í fyrsta sinn sem forysta HSK mætir til fundar í Vestmannaeyjum og þetta var einnig fyrsti formlegi fundur HSK með félögum okkar í ÍBV og USVS. Áður hafa verið haldnir netfundir með ÍSÍ og UMFÍ vegna svæðisskrifstofu íþróttahéraða á Suðurlandi, sem hóf starfsemi sína á síðasta ári.
Á fundinum var m.a. rætt um hugsanleg samstarfsverkefni héraðanna sem svæðisfulltrúarnir koma til með að fylgja úr hlaði með íþróttahéruðunum þremur. Auk fundarhalda skoðuðu fundarmenn glæsileg íþróttamannvirki Eyjamanna og góðri samverustund lauk með kvöldverði á Einsa Kalda. Að honum loknum var haldið heim með Herjólfi.
Á heimleiðinni kom upp sú hugmynd að þingfulltrúar héraðanna þriggja yrðu samferða á sambandsþing UMFÍ í Stykkishólmi í október og verður þeim skilaboðum komið á framfæri til þingfulltrúa. Þess má geta að þetta verður í fyrsta sinn sem fulltrúar ÍBV mæta á UMFÍ þing, en íþróttabandalagið varð aðili að UMFÍ fyrr á árinu.

