2.9 C
Selfoss

Hvað varð um loforðin fyrir Eyrarbakka og Stokkseyri?

Vinsælast

Í kosningabaráttu fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2022 settu meirihlutaflokkarnir í Árborg – D-listi Sjálfstæðisflokksins og Á-listi Áfram Árborg – fram skýr loforð til íbúa í öllum byggðarkjörnum sveitarfélagsins. Sérstaklega var minnst á framtíðaruppbyggingu skólahúsnæðis á Eyrarbakka og menningarsal á bæði Eyrarbakka og Stokkseyri. Báðir listar lögðu einnig áherslu á bætt aðgengi gangandi og hjólandi, öryggi í samgöngum og að innviðauppbygging héldi í við nýja byggð.

Nú, þremur árum síðar, blasir við skýr andstæða: Á meðan á Selfossi hefur verið byggt upp á miklum hraða, skólamannvirki, atvinnulóðir og fjölbreyttar framkvæmdir, þá sitja þorpin við ströndina eftir með loforð sem hafa annaðhvort stöðvast eða gufað upp. Það er afar sorglegt að ganga um þessi fallegu þorp við ströndina þar sem íbúar margir hverjir sinna sínu nærumhverfi vel og sinna sínum lóðum og húsum af kostgæfni, þá lætur sveitarfélagið innviði þorpanna skemmast og drabbast niður og sinnir ekki viðhaldi á götum og gangstéttum. Margar gangstéttir hér við ströndina eru þannig orðnar hættulegar fólki, þá sér í lagi eldra fólki og fötluðum þar sem aðgengi er afar lélegt.

Skólamál og bráðabirgðahúsnæði

Hvað varðar framtíðaruppbyggingu við skólahúsnæði á Eyrarbakka, þá hefur lítið heyrst af þeim loforðum D- og Á-lista eftir að þeir tóku við völdum. Á Eyrarbakka voru settar upp færanlegar kennslustofur við Barnaskólann árið 2023 vegna myglu sem kom upp í skólahúsnæðinu á Eyrarbakka. Í vor 2025 var samþykkt að bæta við enn frekara bráðabirgðahúsnæði, vegna mikilla þrengsla og aðstöðuleysis nemenda og starfsmanna við skólann, en enn hefur ekkert bólað á þeirri lausn. Þannig eru börn og starfsfólk áfram í bráðabirgðaaðstöðu – þvert á loforð um framtíðaruppbyggingu skólahúsnæðis, sem ekkert hefur verið unnið með síðustu þrjú árin.

Menningarhús og samfélagsrými

Bæði Eyrarbakki og Stokkseyri áttu að fá menningarsal. Hugmyndin lifir enn í stefnumótun en hvorki hefur verið auglýst deiliskipulag né fjármögnun tryggð. Á meðan á Selfossi hefur verið öflug uppbygging þar sem framkvæmdir blómstra, bíða íbúar strandarþorpanna eftir því að loforðin verði að veruleika.

Götur, gangstéttir og umhverfi

Á Eyrarbakka var sótt um framkvæmdaleyfi árið 2022 til að endurnýja Eyrargötu og gangstéttir á 260 metra kafla. Málinu var frestað í skipulagsnefnd og ekkert síðan heyrst, þar til núna í sumar þegar loksins hafist var handa við að lagfæra þessa 260 metra. Betur má ef duga skal þar sem göturnar og gangstéttirnar eru í mikilli niðurníðslu, sprungur og holur eru algengar og blómabeð og umhverfi illa hirt.

Eyrabakki.

Á Stokkseyri er svipað ástand: götur og stígar bíða viðhalds og uppbyggingar en það sem sést er aðeins almenn viðhaldsvinna á pappírum sveitarfélagsins. Íbúar upplifa að þorpið fái ekki sama sess og Selfoss, þar sem nýr miðbær, atvinnulóðir og fjöldi framkvæmda sýna allt aðra forgangsröðun.

Stokkseyri.

Innviðir og grunnþjónusta

Ljósleiðari hefur verið lagður að gatnamótum Stokkseyrar–Eyrarbakka og nýr rafstrengur settur í miðbæ Eyrarbakka. Fráveituframkvæmdir eru inni í fjárhagsáætlun næstu ára en óljóst hvenær þær hefjast. Þetta eru vissulega mikilvægar aðgerðir en litlar miðað við loforðin um öfluga innviðauppbyggingu.

Selfoss – uppbyggingin í forgangi

Á meðan hafa framkvæmdir á Selfossi verið gríðarlegar. Nýr miðbær hefur risið, fjölmörg hús hýsa verslanir og þjónustu, ný hótel og veitingahús hafa opnað og atvinnulóðum hefur verið úthlutað. Það er augljóst að stærsti hluti fjármagns og athygli sveitarfélagsins hefur farið þangað. Þetta er allt mjög jákvætt og gott fyrir sveitarfélagið en á sama tíma má ekki gleyma að við ströndina er lítil sem engin uppbygging.

Sjálfstæðisflokkur og Á-listinn verða að efna sín loforð

Íbúar Eyrarbakka og Stokkseyrar horfa nú upp á að loforð meirihlutans frá 2022 hafi ekki skilað sér í sýnilegum umbótum í þeirra nærumhverfi. Bráðabirgðalausnir í skólahaldi, ófrágengin verkefni í gatnagerð og óraunhæf menningarhúsáform standa í skörpum andstæðum við uppbygginguna á Selfossi.

Þorpin við ströndina eiga betra skilið. Nú er kominn tími til að meirihluti bæjarstjórnar, Sjálfstæðisflokkur og Á-listi Árborgarlistans, standi við loforðin sem gefin voru og tryggi að allir hlutar Árborgar njóti jafns forgangs og framtíðarsýnar.

  • Sigin og brotin gangstétt við Túngötu – dæmi um vanrækslu í viðhaldi
  • Djúp hola við Túngötu – hættuleg bæði gangandi og hjólandi.
  • Gangstétt sprungin og kantar molnaðir – engin viðgerð í mörg ár
  • Blómabeð á kafi í illgresi – áður fallegt og vel við haldið

Úrgangi úr framkvæmdum við Eyrargötu/Búðarstíg verður sturtað við bryggjuna og tjaldsvæðið–vinsælt útivistarsvæði og göngusvæði.

Sædís Ósk Harðardóttir, íbúi á Eyrarbakka

Nýjar fréttir