3.5 C
Selfoss

Pabbi plokksins til Íslands um helgina

Vinsælast

Pabbi plokksins kemur um helgina til Íslands og mun hitta fyrir ráðherra, plokkara og sjóplokkara í næstu viku.

Erik Ahlström sem oftast er kallaður upphafsmaður plokksins í heimunum er væntanlegur til Íslands um helgina og verður á Íslandi í næstu viku. Hann verður á ferðinni um landið og ætlar bæði að skoða landið og hitta sem flesta plokkara og heldur einnig fyrirlestur í lok mánaðar. Af fjölmörgu sem Erik ætlar sér að gera hér í næstu viku er að hitta Jóhann Pál Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og ætla þeir að sjóplokka úr kæjak á Faxaflóanum ásamt Örlygi Sigurjónssyni kæjakplokkara.

„Það er mér mikill heiður að fá boð til Íslands. Flest rusl endar á endanum í hafinu og því finnst mér það bæði ábyrgð og forréttindi að fá tækifæri til að miðla plogging-boðskapnum hér. Með sameiginlegu átaki getum við orðið hluti af lausninni á mengunarvandanum – eitt plokk í einu.“ Segir Erik en hann verður hér á ferðinni með syni sínum sem einnig er á kafi í plokkinu.

“Hann ætlar að byrja heimsóknina í Reykjanesbæ, hittir þar herforingja Bláa hersins, Tomma Knút, síðan kemur hann í borgina og hér ætlum við að vera með smá plökkviðburð á þriðjudaginn. Síðan hittir hann Jóhann Pál ráðherra á miðvikudag. Svo er ferðinni heitið út á land. Hann vill ólmur hitta Elínu Birnu á Eyrarbakka, Ásu Maríu á Flúðum og Sigríði Kristjánsdóttur í Hveragerði. Þetta fólk eru helstu fyrirmyndirnar okkar sem plokkum,” segir Einar Bárðarson sem meðal annarra hefur undirbúið heimsókn Eriks. „Hann er í Facebook-hópnum „plokka á Íslandi“ og fylgist vel með.”

Meira um Erik: Erik Ahlström er sænskur útivistarmaður og frumkvöðull sem er þekktastur sem stofnandi plogging-hreyfingarinnar.

• Hann hóf hreyfinguna í Stokkhólmi árið 2016 þegar hann fór að sameina hlaup og umhverfisvernd með því að tína rusl á hlaupum sínum. Hugtakið „plogging“ kemur úr sænsku orðunum plocka upp (að tína upp) og jogga.
• Hugmyndin breiddist hratt út og hefur síðan orðið alþjóðleg hreyfing sem sameinar líkamsrækt og umhverfisátak.
• Ahlström hefur starfað sem leiðsögumaður í fjallgöngum og útivist, unnið með samfélagsverkefnum og haldið fyrirlestra um sjálfbærni og náttúruvernd.
• Hann hefur verið kallaður „pabbi plogging“ (the father of plogging) og er virkur í að hvetja sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklinga til að sameina hreyfingu og axla ábyrgð gagnvart náttúrunni.

Nýjar fréttir