Rangæingar og aðrir Sunnlendingar eru boðnir sérstaklega velkomnir á Njáluvöku sem haldin er í Rangárþingi í þessari viku. Þar verður Brennu-Njáls sögu gerð skil með margvíslegum hætti, með tónlist, leiklist, fræðaspjöllum, brennureið og brekkusöng. Sagan er í mínum huga merkasta bók sem rituð hefur verið á íslenska tungu og það er stórkostlegt að hafa allt sögusviðið hér í túnfætinum. Ég er viss um að í því geti falist gríðarleg verðmæti þegar fram líða stundir.
Njáluvaka hefst með svokölluðum Njáluperlum í íþróttahúsinu á Hvolsvelli fimmtudagskvöldið 21. ágúst. Listaperlurnar eru margar. Úrvalsleikararnir Atli Rafn Sigurðarson, Ingvar Sigurðsson, Sólveig Arnarsdóttir og Svandís Dóra Einarsdóttir munu flytja frumsamda leikþætti úr Njálu, Hundur í óskilum verður með nýtt frumsamið Njálutengt efni, Karlakór Rangæinga stígur á stokk og tveimur af höfuðpersónum Njálu verða gerð skil í áhugaverðu fræðaspjalli. Aðgang er hægt að kaupa við dyr og á njaluslodir.is og midi.is.
Njálsbrenna verður svo á Rangárbökkum á Hellu, á laugardagskvöldið klukkan 20.00. Þar verður fjölbreytt dagskrá en hápunkturinn er þegar 99 brennumenn í vínrauðum skikkjum ríða inn á völlinn. Hermann Árnason fer þar í gervi Flosa Þórðarsonar fyrir liði brennumanna og eftir skrautreið á hringvellinum grípur hann logandi blys og kveikir í táknrænni endurbyggingu Bergþórshvols en innan dyra má heyra Njál og Bergþóru mæta örlögum sínum í bálinu sem loga mun í myndarlegum bálkesti fram eftir kvöldi á meðan enginn annar en Magnús Kjartan Eyjólfsson stýrir brekkusöng. Þessi mikli viðburður er í boði hins nýstofnaða Njálufélags og aðgangur því ókeypis.
Hátíðarmessa til heiðurs Snorra Sturlusyni verður svo í Oddakirkju á sunnudaginn kl. 14.00. Auk sóknarprestsins, sr. Elínar Hrundar Kristjánsdóttur, mun sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson prestur í Hruna taka til máls og Óskar Guðmundsson rithöfundur ræðir um Snorra Sturluson á Njáluslóðum.
Ég hvet Rangæinga og aðra Sunnlendinga til þess að fjölmenna á viðburði Njáluvöku sem nánar má sjá um á vefnum njaluslodir.is eða fésbókarsíðunni Njáluvaka.
Guðni Ágústsson

