5.5 C
Selfoss

Njáluvaka í Rangárþingi

Vinsælast

Nýstofnað Njálufélag að frumkvæði og undir forystu Guðna Ágústssonar gengst fyrir Njáluvöku í Rangárþingi dagana 21.–24. ágúst næstkomandi. Tilgangur félagsins er að hefja Brennu-Njáls sögu til þess vegs og virðingar sem henni ber í íslenskri bókmenntasögu. Fjölbreytt dagskrá hátíðarinnar markar upphaf þeirrar vegferðar. Vonast er eftir góðri mætingu á lista- og fræðakvöld Njáluvöku og ekki síður fjölmenni á útihátíð á Rangárbökkum þar sem 99 manna hópreið í slóð Brennu-Flosa lýkur með því að eldur verður borinn að táknrænni endurgerð Bergþórshvols auk ýmissa annarra dagskráratriða. Einkunnarorð vökunnar eru „Upp með Njálu“.

Njáluvaka hefst með lista- og fræðakvöldinu Njáluperlur fimmtudagskvöldið 21. ágúst í íþróttahúsinu á Hvolsvelli. Þar verða m.a. frumfluttir sérsamdir leikþættir Svandísar Dóru Einarsdóttur leikkonu ásamt leikhópi sínum, Hundur í óskilum syngur glæný lög sín af Njáluslóðum og Karlakór Rangæinga treður upp. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir prófessor og Friðbjörn Garðarsson lögmaður flytja erindi um tvær af höfuðpersónum Njálu og Guðni Ágústsson fer nokkrum orðum um þetta mikla þrekvirki sem Brennu-Njáls saga er.

Hápunktur Njáluvöku verður síðan á laugardagskvöldinu á Rangárbökkum í boði Njálufélagsins. Þar verður m.a. skrautreið skikkjuklæddra brennumanna sem bera eld að Bergþórshvoli þar sem heyra má Njál og Bergþóru mæta örlögum sínum í bálinu, karlakór Rangæinga og Öðlingarnir syngja, víkingafélagið Rimmugýgur sviðssetur bardaga undir alvæpni, fimi Skarphéðins í tólf álna stökkinu verður sýnd og Magnús Kjartan Eyjólfsson stýrir brekkusöng.

Njáluvöku lýkur síðan á sunnudegi með hátíðarmessu í Oddakirkju til heiðurs Snorra Sturlusyni. Alla dagana munu veitingastaðir í Rangþárþingi bjóða upp á sérstaka veislurétti sem tileinkaðir eru síðasta kvöldverðinum sem Bergþóra Skarphéðinsdóttir bauð fólki sínu upp á kvöldið sem Flosi Þórðarson bar eld að Bergþórshvoli.

Í framhaldi af Njáluvöku er síðan stefnt að málþingi um Brennu-Njáls sögu síðar í haust með þátttöku ýmissa fræðimanna. Jafnframt er fyrirhugað að taka allt helsta efni Njáluvöku upp og hafa það aðgengilegt á vefnum njaluslodir.is. Hugmyndinni um Njáluvöku hefur verið afar vel tekið hjá atvinnurekendum og hafa þeir lagt verkefninu ómetanlegt lið með fjárstuðningi sínum.

Nýjar fréttir