Á þessu ári eru 70 ár liðin frá því að Heilsuhæli Náttúrulækningafélags Íslands, eins og það hét fyrstu 36 árin, hóf starfsemi í Hveragerði. Það var frumkvöðullinn Jónas Kristjánsson læknir (1870-1960) sem þá 85 ára ljómaði af stolti þann 24. júlí 1955 við opnun Heilsuhælisins, nú Heilsustofnun.

Ljósmynd: Aðsend.
Berum ábyrgð á eigin heilsu
Á þeim 70 árum sem liðin eru hefur starfsemi Heilsustofnunar tekið miklum breytingum en alla tíð hefur verið lögð áhersla á að dvalargestir læri að bera ábyrgð á eigin heilsu. Tugir þúsunda hafa nýtt sér þjónustu Heilsustofnunar en það koma um 1.350 einstaklingar í læknisfræðilega endurhæfingu á hverju ári þar sem lögð er áhersla á þarfir hvers einstaklings.
Á Heilsustofnun starfa um 100 manns, öflugur hópur fagfólks og annarra sem hafa það eitt að markmiði að bæta heilsu fólks sem kemur til endurhæfingar hverju sinni.
Endurhæfing
Í dag er fjölþætt endurhæfingarþjónusta og lögð áhersla á þarfir hvers einstaklings. Mismunandi meðferðarlínur eru í boði sem stýrt er af öflugum hópi fagfólks. Hollt og gott mataræði hefur ávallt verið ríkur þáttur í starfseminni og er áhersla lögð á hæfilega hreyfingu, útivist í fallegri náttúru, en jafnframt núvitund, slökun og hvíld en allt þetta fer vel með faglegri endurhæfingu. Þá er fræðsla og fagleg ráðgjöf mikilvægur hluti af meðferðinni.
Opið hús
Í tilefni af þessum tímamótum verður opið hús laugardaginn 16. ágúst nk. kl. 13 – 17 með tilheyrandi dagskrá, tónlist og veitingum í boði hússins. Verið velkomin!
Þórir Haraldsson,
forstjóri.

