3.5 C
Selfoss

Blómstrandi dagar fagna 30 ára afmæli með veglegri fjölskylduhátíð

Vinsælast

Bæjarhátíðin Blómstrandi dagar í Hveragerði hefst þriðjudaginn 12. ágúst og stendur til 17. ágúst. Í ár fagnar hátíðin 30 ára afmæli og verður dagskráin óvenju vegleg. Tugir viðburða standa gestum til boða – allt frá sundþrautabrautum og gönguferðum yfir í stórtónleika, fjölskylduball og flugeldasýningu.

„Við erum að fara af stað með stærstu Blómstrandi daga frá upphafi – þetta verður sannkölluð afmælishátíð þar sem fjölbreytt dagskrá og kraftmiklir listamenn bjóða upp á upplifun sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara,“ segir Rakel Magnúsdóttir, verkefnastjóri Blómstrandi daga. „Við leggjum sérstaka áherslu á að fá listamenn sem búa í Hveragerði til að stíga á stokk – enda býr fjöldi listafólks í bænum og við viljum að heimamenn eigi sviðið á þessum tímamótum.“

Meðal þess sem gestir geta hlakkað til eru tónleikar með Jónasi Sig og Jóni Ólafssyni og fjölskylduball með Daða Frey. Bæði Jónas og Daði Freyr eru nýfluttir í Hveragerði.

Hápunktur Blómstrandi daga verður laugardaginn 16. ágúst með fjölbreyttri dagskrá frá morgni til kvölds. Þá verður meðal annars boðið upp á glæsilega fornbílasýningu, Kjörísdaginn, fjölskylduskemmtun í Lystigarðinum þar sem VÆB, Ingó töframaður og Latibær troða upp, ásamt tónleikum með Sycamore Tree og sýningu Leikhópsins Lottu. Um kvöldið tekur svo kvölddagskráin við, þar sem Jónas Sig, Lay Low og Ágústa Eva koma fram áður en kvöldinu lýkur með brekkusöng og flugeldasýningu.

Blómstrandi dagar í Hveragerði eru orðnir órjúfanlegur hluti af menningarlífi bæjarins þar sem áhersla er lögð á þátttöku heimamanna og gleði fjölskyldunnar.

Nýjar fréttir