5.5 C
Selfoss

Victor Hugo og Vesalingarnir á Kvoslæk

Vinsælast

Laugardaginn 9. ágúst kl. 15.00 verður kynning á Vesalingunum, stórvirki franska rithöfundarins Victors Hugo, á Kvoslæk í Fljótshlíð.

Les Misérables – Vesalingarnir er sígild, stórbrotin skáldsaga eftir franska rithöfundinn Victor Hugo (1802–1885) frá 1862. Hún er meðal merkustu skáldsagna 19. aldar og var upphaflega gefin út í fimm bindum.

Þar er lýst frönsku mannlífi, ójöfnuði, stéttaskiptingu og baráttu lágstéttarfólks fyrir sanngjarnari lífskjörum. Þá er tekist á við vandamál siðferðis og endurlausnar auk þess sem Hugo fræðir lesendur sína um mannvirkjagerð og aðrar framfarir.

Rut Ingólfsdóttir leggur nú lokahönd á fyrstu heildarþýðingu verksins á íslensku. Hún ætlar að segja frá því og vinnu sinni við þýðingu þess sem hún hóf árið 2020.

Þá les Gérard Lemarquis ljóð úr Vesalingunum á frönsku og María Gunnarsdóttir flytur íslenska þýðingu Reynis Axelssonar á ljóðunum.

Skáldsagan hefur verið sviðsett á ýmsan hátt, gerðar hafa verið kvikmyndir, sjónvarpsþættir og söngverk, þar á meðal söngleikurinn Les Misérables, einn af fimm vinsælustu söngleikjum sögunnar.

Aðalheiður M. Gunnarsdóttir söngkona og Guðjón Halldór Óskarsson píanóleikari flytja atriði úr söngleiknum.

Nýjar fréttir