Suðurland verður fullt af lífi og fjöri um verslunarmannahelgina með fjölbreyttum viðburðum fyrir fjölskyldur og áhugafólk um útivist og tónlist.
Á Flúðir um versló verður fjölbreytt barna- og fjölskyldudagskrá og má þá meðal annars nefna traktoratorfæruna, slátturtraktorarallý og furðubátakeppni. Ljótu hálvitarnir verða með tvenna tónleika yfir helgina en einnig verða dansleikir um kvöldin, annars vegar með Helga Björns, Sölku Sól og Reiðmönnum vindanna og síðan Skítamóral, Klöru Einars og DJ Önnu Ármans. Hægt er að skoða dagskrána inni á www.fludirumverlso.is.
Kotmót er kristileg fjölskylduhátíð í Kirkjulækjarkoti í Fljótshlíð sem haldin er af Hvítasunnukirkjunni og hefur verið haldið árlega frá 1949. Mótið býður upp á fjölbreytta dagskrá fyrir alla aldurshópa. Á laugardeginum verður hið vinsæla Karnival þar sem meðal annars verður hoppukastali, andlitsmálning, vatnsfótbolti, candyflos og margt fleira. Um kvöldið verður svo varðeldur og sungið saman. Dagskráin heldur svo áfram á sunnudeginum þar sem meðal annars verða haldnir stórglæsilegir tónleikar með hljómsveit, kór og einsöngvurum. Hægt er að skoða dagskrána inni á www.kotmot.is.
Skátarnir á Úlfljótsvatni verða með stórskemmtilega dagskrá fyrir alla fjölskylduna um helgina. Á dagskránni verður t.d. hægt að poppa yfir eldi, búa til smáfleka, fara í ratleik, fara í vatnasafarí, fara í bogfimi og margt fleira. Á laugardags- og sunnudagskvöld verður svo kvöldvaka. Hægt er að skoða dagskrána inni á www.ulfljotsvatn.is.
Flughátíðin í Múlakoti verður á sínum stað um verslunarmannahelgina. Þar gefst fólki tækifæri til að skoða flugvélar og fylgjast með lífinu í kringum flugið. Nóg verður um að vera fyrir börn og fullorðna, þar á meðal lendingarkeppni, hoppukastali og hoppubelgur. Á laugardagskvöldið verður svo hið víðfræga Skýlisball.
Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum er fyrir löngu búin að festa sig í sessi sem ein stærsta útihátíð á Íslandi. Gert er ráð fyrir að þúsundir landsmanna muni gera sér ferð til Vestmannaeyja um helgina. Á Þjóðhátíð ættu tónlistarunnendur að finna eitthvað við sitt hæfi enda munu margir af okkar þekktasta tónlistarfólki koma fram á hátíðinni.
Á Hraunborgum í Grímsnesi verður skemmtidagskrá fyrir verslunarmannahelgina líkt og undanfarin ár. Á dagskrá verður meðal annars nammileit, karamellukast og grillaðir hamborgarar. Ásgeir trúbador spilar fyrir gesti bæði laugardags- og sunnudagskvöld.
Veistu um eitthvað meira sem er að gerast um helgina? Hægt er að senda ábendingar á dfs@dfs.is.

