2.9 C
Selfoss

Bræður skipuðu boðhlaupsveit á héraðsmótinu í frjálsum

Vinsælast

Á héraðsmóti HSK í frjálsíþróttum sem fram fór á Selfossi í síðustu viku skipuðu fjórir bræður boðhlaupssveit Umf. Þjótanda í 4×100 m hlaupi karla. Þetta voru Hurðarbaksbræðurnir Unnsteinn, Sigurjón, Helgi og Kristján Reynissynir og þeir kræktu sér í bronsverðlaun. Þetta aðeins í annað skiptið í 115 ára sögu HSK, svo vitað sé, sem bræður manna boðhlaupssveit síns félags á héraðsmóti.

Í ár eru 73 ár síðan Miðfellsbræður, þeir Skúli, Magnús, Karl og Emil Gunnlaugssynir skipuðu sigursveit Hrunamanna á héraðsmóti á Þjórsártúni 1952.

Mótið á Selfossvelli var haldið við frábærar aðstæður. Heimamenn úr Umf. Selfoss mættu með öflugt lið og gjörsigruðu stigakeppnina með 384 stig. Dímon varð í öðru sæti með 67 stig og Hekla í því þriðja með 33 stig.

Hjálmar Vilhelm Rúnarsson og Anna Metta Óskarsdóttir, bæði úr Umf, Selfoss voru stigahæstu keppendur mótsins, Hjálmar Vilhelm halaði inn 24 stigum og Anna Metta krækti í 33 stig.

Hjálmar Vilhelm varð fimmfaldur héraðsmeistari, hann sigraði í 100 m hlaupi, stangarstökki, kúluvarpi og kringlukasti, auk þess sem hann var í boðhlaupssveit Selfoss sem sigraði í 4×100 m hlaupi karla.

Anna Metta varð fjórfaldur héraðsmeistari. Hún sigraði í þrístökki, 1.500 m hlaupi og 100 m hlaupi auk þess sem hún var í boðhlaupssveit Selfoss sem sigraði í 4×100 m hlaupi kvenna. Í 100 m hlaupinu hljóp hún á 13,09 sek og bætti átta ára gamalt HSK-met Bríetar Bragadóttur, Umf. Selfoss, í flokki 15 ára stúlkna um 0,02 sekúndur.

Helga Fjóla Erlendsdóttir, Íþf. Garpi, og Daníel Breki Elvarsson, Daníel Smári Björnsson og Þórhildur Sara Jónasdóttir, öll úr Umf. Selfoss, urðu öll þrefaldir héraðsmeistarar.

Fleiri héraðsmet féllu á mótinu. Sigríður Elva Jónsdóttir, Umf. Selfoss, bætti HSK-metið í 100 m grindahlaupi á fullorðinsgrindur í flokki 13 ára stúlkna þegar hún hljóp á 18,11 sek og bætti tveggja ára gamalt met Önnu Mettu um 1,73 sek. Þá bætti Ólafur Guðmundsson eigið HSK-met í kúluvarpi í öldungaflokki 55-59 ára. Ólafur kastaði 10,17 m og bætti metið um 13 sm.

Þann 9. júlí síðastliðin voru 115 ár síðan fyrsta Skarphéðinsmótið var haldið á Þjórsártúni. Þann dag var fyrsta HSK metið skráð í sögubækur, en Jón Gunnlaugsson úr Hvöt stökk 1,34 metra i hástökki. Í ár var það Helgi Reynisson úr Þjótanda sem sigraði í hástökkinu en hann stökk 1,71 m.

Nokkrir keppendur utan héraðs kepptu sem gestir á héraðsmótinu nú í vikunni og settu þeir fjögur Íslandsmet í öldungaflokkum. Kristinn Guðmundsson, FH, bætti Íslandsmetin í 800 m og 1.500 m hlaupi karla í 65-69 ára flokki, Hafsteinn Óskarsson, ÍR, bætti Íslandsmetið í 400 metra hlaupi í flokki 65-69 ára og Fríða Rún Þórðardóttir,ÍR, setti Íslandsmet í 1.500 metra hlaupi í 55-59 ára flokki kvenna.

Verðlaunaafhending fyrir 4×100 boðhlaup karla.
Verðlaunaafhending fyrir 4×100 boðhlaup kvenna.
Sigurlið Umf. Selfoss.

Nýjar fréttir