Bókasafn Árborgar verður með rómantíska dagskrá í ágúst undir heitinu „Einu sinni á ágústkvöldi“. Fyrsti viðburðurinn verður 9. ágúst sem er Múmíndagurinn og þá verður viðfangsefnið „Ást Múmínálfanna“, upplestur, myndasýning og ratleikur fyrir börnin, svo heldur dagskráin áfram meðal annars með ljóðskáldunum Völu Hauksdóttur og Arndísi H. Tyrfingsdóttur, höfundakvöldi um Snjólaugu Bragadóttur og Birgittu H. Halldórsdóttur og Kristín Linda Jónsdóttir, okkar helsti sérfræðingur í Jane Austen-bókum og ferðalögum, kemur til okkar. Við endum á dagskrá fyrir börnin, „Ástarsaga úr fjöllunum“, og hver veit nema það takist að laða tröll að safninu.
Skreytingar á safninu eru alltaf hluti af umfangsmiklum viðburðum og nú langar okkur að biðja ykkur um að hjálpa til og senda okkur stuttar athugasemdir um ástina, fallegar, fyndnar, kannski einstaka pínu-illkvitnar en aðallega ofurrómantískar. Sendið okkur á afgreidsla@arborg.is.
Hægt verður að fylgjast með ágúst-dagskránni á heimasíðu og Facebook-síðu safnsins.

