Sumartíminn á Íslandi er tími framkvæmda enda mörg verkefni háð góðri veðráttu. Það er því ákjósanlegt þegar vorið er gott, líkt og fjöldi framkvæmda- og viðhaldsverkefna sveitarfélagsins í bera nú vitni um.
Álag á götum og gangstígum
Viðhald gatna og göngustíga er eitt lykilverkefna sveitarfélagsins og á hverju sumri er reynt að laga yfirborð gatna sem þess þarfnast. Þetta eru mannvirki sem eru mikið notuð allt árið um kring og kalla á talsvert viðhald. Ákjósanlegast væri auðvitað að geta lagað allar götur og stíga sem láta á sjá, en reynt er að forgangsraða verkefnum og nýta fjármagnið sem best á hverju ári.
Sumarið 2025 er búið að laga hluta af Bankavegi, Sólvöllum, Nauthaga og Fossheiði á Selfossi ásamt hluta af gangstétt sem verið er að vinna að áfram. Síðar í sumar verða svo Austurhólar og hluti af Suðurhólum malbikaðir. Samhliða endurnýjun stofnstrengs hjá HS Veitum við Tryggvagötu frá Engjavegi að Sundhöll verður hluti gangstéttar og götuljósa endurnýjaður. Nýjar hraðahindranir eru komnar upp við Stekkjaskóla og er fleiri fyrirhugaðar við aðrar götur í sveitarfélaginu síðar í sumar til að auka öryggi vegfarenda. Vegagerðin vinnur svo að viðhaldi gatna á Eyravegi og búið er að malbika hluta Eyrarbakkavegar. Einnig stendur til að vinna að þverun göngu- og hjólastígs við Stokkseyrarafleggjara.

Endurgerð hluta Búðarstígs á Eyrarbakka stendur yfir þar sem gata, gangstígar og lýsing verða endurgerð fram yfir samkomuhúsið Stað. Einnig er endurgerð Rauðholts á Selfossi langt komin og ætti að klárast síðar í haust með malbikun, göngu- og hjólastíg og götutrjám. Síðar á árinu er fyrirhugað að leggjast í gatnagerð við Dvergasteina á Stokkseyri, hluta af Hjalladæl á Eyrarbakka og Fossnes á Selfossi.

Fjölbreytt umhverfisverkefni
Umhverfisdeild sveitarfélagsins hefur sem fyrr haft í nægu að snúast. Gott vorveður gerði þar gæfumuninn í mörgum verkefnum. Fjölmörg svæði og götur í sveitarfélaginu hafa verið hreinsuð, sumarblóm gróðursett og bær og þorp fengið yfir sig sumarbrag. Vinnuskóli Árborgar kom auk þess að fjölda umhverfisverkefna þar sem krakkarnir snyrtu leikvelli, götur og hverfi í sveitarfélaginu.
Unnið er að þökulagningu í nýjum hverfum, svo sem við Stekkjaskóla og nærliggjandi götur. Þar er stefnt að frekari plöntun trjáa síðar í sumar sem og á fleiri stöðum í sveitarfélaginu. Lýsing á leiksvæðinu við Dælengi hefur verið bætt og á næstu dögum verður lýsing á leiksvæðinu við Kringlumýri endurnýjuð. Markmiðið er að bæta öryggi og nýtingu á leiksvæðum allt árið um kring.

Fyrirhugað er að samstarf sveitarfélagsins og Vegagerðarinnar haldi áfram við endurgerð miðeyja á Austurvegi. Svæðið fyrir framan bókasafnið hefur heppnast vel með girðingu, trjám og blómakörfum en gert er ráð fyrir að halda áfram í sumar með svæðið fyrir framan Íslandsbanka að Tryggvagötu.
Þetta er þó aðeins hluti af þeim verkefnum sem í gangi eru hjá okkur. Áfram er unnið að uppbyggingu hreinsistöðvar, dæluhúss og endurnýjun vatnslagna og í undirbúningi eru önnur framkvæmdaverkefni sem fara af stað síðar í haust og vetur.

Ég vil jafnframt að endingu þakka öllum þeim íbúum sem hafa af mikilli samviskusemi fegrað sitt nærumhverfi í sumar. Á það t.d. við um gangstíga í sínu hverfi, tínslu á rusli eða hreinsun á svæðum sem sveitarfélagið hefur ekki náð að komast yfir í sumar. Það má enda segja að það sé samvinnuverkefni að halda samfélaginu okkar snyrtilegu og fallegu. Vona ég að allir njóti verslunarmannahelgarinnar og fari varlega í umferðinni.
Bragi Bjarnason,
bæjarstjóri og oddviti sjálfstæðisflokksins í Árborg

