Í þarsíðustu viku birti Dagskráin krossgátu eftir Hafliða Magnússon og var með því verið að heiðra minningu hans en hann hefði orðið 90 ára þann 16. júlí sl. Hafliði var með vikulegar krossgátur í Sunnlenska fréttablaðinu á Selfossi í rúman áratug í byrjun þessarar aldar og nutu þær mikilla vinsælda lesenda blaðsins.
Fjölmargir hafa lýst ánægju sinni með þetta innlegg Dagskrárinnar í síðustu viku og glímdu við að leysa þessa krossgátu fullir þakklætis fyrir þetta menningarlega framtak.
Hafþór Gestsson á Eyrarbakka er einn þeirra sem ætíð tókst á við krossgátur Hafliða Magnússonar með mikilli ánægju og virðingu fyrir hinni öguðu leikni Hafliða með orð og íslenskt mál. Hafþór á glæsilega stöðu í krossgátusögu Suðurlands því hann náði því að verða krossgátumeistari Suðurlands þann 15. maí árið 2011 í troðfullu Íþróttahúsinu á Stokkseyri á Sumarblóti Hrútavinafélagsins Örvars. Hafliði hannaði þessa keppni og samdi krossgátuna sem Hafþór varð fyrstur að leysa með glæsibrag. Ekki hafa verið fleiri krossgátukeppnir í þessum dúr því Hafliði lést þann 25. júní árið 2011.

Í ljósi þessa fékk Hafþór Gestsson nú fyrstur manna að takast á við krossgátu Dagskrárinnar í 90 ára afmælisminningu Hafliða Magnússonar. Nákvæm tímavarsla var í höndum Jóhanns Páls Helgasonar og réði Hafþór krossgátuna á 27 mínútum. Sagði Hafþór þetta hafa verið sérlega skemmtilega stund og finna svo sannarlega anda Hafliða Magnússonar í krossgátu að nýju.
Undirritaðir, í 90 ára afmælisnefnd Hafliða Magnússonar, viljum þakka Prentmet Odda á Selfossi fyrir þeirra vegalaga þátt í 90 ára afmælisminningu Hafliða Magnússonar frá Bíldudal sem bjó á Selfossi frá árinu 1998.
Björn Ingi Bjarnason
Bjarni Harðarson
Jóhann Páll Helgason



