3.5 C
Selfoss

Metaðsókn í Kerlingarfjöll ULTRA

Vinsælast

Utanvegahlaupið Kerlingarfjöll ULTRA var haldið í annað sinn laugardaginn 26. júlí og var metaðsókn í hlaupið. Keppendur spreyttu sig á þremur hlaupaleiðum á miðhálendinu og tókust á við krefjandi aðstæður með bros á vör.

„Viðburðurinn gekk vonum framar og það er gaman að geta haldið þetta hlaup í annað sinn. Hálendi Íslands er einstakt og náttúruhlauparar og aðrir sem hafa gaman af því að njóta útivistar í ævintýralegu umhverfi lögð leið sína í Kerlingarfjöll til þess að taka þátt eða hvetja. Við erum hæstánægð með hlaupið,” segir Helga María Heiðarsdóttir, framkvæmdastjóri hlaupsins Kerlingarfjöll ULTRA.

Ljósmynd: Kerlingarfjöll ULTRA.

Hlaupaleiðirnar voru 12 kílómetrar, 22 kílómetrar og 60 kílómetrar og var mest þátttaka í 22 kílómetra hlaupinu, en þar voru 226 hlauparar ræstir út.

Það var töfrandi stemning á hálendinu allan daginn, enda fjöldi hlaupara og aðstandenda saman komnir í hálendismiðstöðinni.

Hlaupaleiðirnar lágu um margar af perlum Kerlingarfjalla og má þar helst nefna hina mögnuðu Hveradali og Kerlingu, sem fjallgarðurinn dregur nafn sitt af. Á leiðinni er útsýni yfir miðhálendið og jöklana tvo sem fjallgarðurinn liggur á milli, Hofsjökul og Langjökul. Heildarhækkun í 60 km leiðinni, er um 2.100 metrar og þar munar mest um Sléttaskarð á milli Ögmundar og Hattar sem hlauparar klífa eftir um 34 km hlaup.

Í fyrsta sæti í 60 km keppninni og þ.a.l. einnig í kvennaflokki var Andrea Kolbeinsdóttir á tímanum 05:56:21 og í karlaflokki var það Gunnar Lárus Karlsson sem fór með sigur af hólmi á tímanum 06:52:40. Í 22 km vegalengdinni var það Þorsteinn Roy sem sigraði karlaflokkinn á tímanum 01:53:28 og bætti þar með brautarmetið frá því í fyrra um tæpar 17 mínútur og Halldóra Huld Ingvarsdóttir sem sigraði í kvennaflokki á tímanum 02:30:37 og bætti þar með brautarmet kvenna frá því í fyrra um 6 mínútur. Í 12 km voru það Daniel Darri Gunnarsson og Þórey Hákonardóttir sem sigruðu karla- og kvennaflokk, á tímunum 01:09:56 og 01:19:26. Frekari úrslit má nálgast á timataka.is.

Ljósmynd: Kerlingarfjöll ULTRA.

Markmið skipuleggjenda er ávallt að verja viðkvæmt landslagið og því er hlaupið skipulagt í nánu og góðu samstarfi við Umhverfisstofnun. Mikið er lagt upp úr því að hafa lágmarksáhrif á umhverfið og landslag svæðisins, enda fer hlaupið fram á friðlýstu náttúruverndarsvæði. Keppendur voru sérstaklega minntir á að hlaupa ekki utan stíga, bæði fyrir hlaup og í brautinni sjálfri, og eins var það tryggt að hlauparar bæru með sér rusl á milli drykkjarstöðva svo ekkert sorp yrði eftir úti í náttúrunni. Eins voru gestir hvattir til að sameinast í bíla til að lágmarka ágang.

Ljósmynd: Kerlingarfjöll ULTRA.

„Náttúran er okkar verðmætasta auðlind og okkar markmið er alltaf að lifa í sátt og samlyndi við hana. Íslendingar eiga líka mikið inni í heimsóknum á miðhálendið og við erum því stolt af því að geta boðið hlaupurum fyrsta flokks gistingu og dásamlega afþreyingu hér í fjöllunum. Veðrið gerir samt bara það sem það vill og við mætum því með bros á vör, eins og öllu öðru,“ sagði Helga að lokum.

Mikil gróska hefur verið í heimi íslenskra utanvegahlaupa undanfarin ár og Kerlingarfjöll ULTRA að verða fastur liður í hlaupadagatali íslenskra hlaupara.

Ljósmynd: Kerlingarfjöll ULTRA.

Nýjar fréttir