2.9 C
Selfoss

Stórt skipulagsslys framundan í Hveragerði

Vinsælast

Lög kveða á um að bæjarfélag endurskoði og uppfæri aðalskipulag sitt reglulega til að leiða þróun þéttbýlisins og samfélagsins í æskilega og hagræna braut, og til þess að forðast skipulagsleg mistök í framtíðinni.  Bæjarstjórn á hverjum tíma ber höfuðábyrgð á skipulaginu, en felur skipulagsnefnd, skipulagsfulltrúa og ráðgjöfum að vinna að undirbúningi og útfærslu þess. Skiplagsslys eru dýr, og fyrirsögnin að þessari grein eru stór orð, ekki sögð af léttúð, heldur í fúlustu alvöru. Nokkur orð þarf til að útskýra og réttlæta fullyrðinguna.

Sögu skipulagsins má greina á staðfestum aðalskipulagsuppdráttum.  Aðalskipulag Hveragerðis hefur verið óraunhæft og óskynsamlegt frá 1993 fyrir landsvæðið sunnan við þjóðveg. Norðan þjóðvegar hefur bæjarskipulagið þróast eðlilega, en í nánustu framtíð þarf að huga að byggð sunnan þjóðvegar, og þá vandast málið.

Aðalskipulag Hveragerðis fyrir 1993-2013 var í raun aðeins fyrir land norðan við þjóðveginn. Hugmyndir um suðurhlutann voru á engann hátt mótaðar eða raunhæfar.
Aðalskipulagið fyrir 2005-2017 sýnir að hugmyndir voru þá uppi um að halda þjóðveginum að mestu á þeim stað sem hann er í dag.  Vegagerðin var samt ekki ánægð með staðsetningu hans. Vegagerðin vildi aðeins eina tengingu við þéttbýlið, og rými fyrir mislæg gatnamót við hringtorgið. Fyrir bæjarfélagið  var gallinn sá að þjóðvegur og háspennulínur kljúfa bæjarlandið þegar byggðin stækkar til suðurs, og mikið land fer í súginn af byggingarlandi sunnan þjóðvegar. Á þessum tímapunkti var þó byrjað í alvöru að huga að skipulagi suðurhlutans.

Aðalskipulagið fyrir tímabilið 2017-2029 sýnir flutning á þjóðvegi, um 150-200 metra fjarlægð, frá núverandi þjóðvegi, að líkindum að ósk Vegagerðarinnar til að fá rými fyrir mislæg gatnamót. Bæjarfélagið samdi við Landsnet um að grafa háspennustrengina í jörðu. Skerðingar aukast  vegna legu þjóðvegar og háspennulína. Helgunarsvæði halda samt áfram að vera til staðar, og enn er gengið á land innan bæjarmarka. Slæm tillaga fyrir eðlilega þróun byggðar Hveragerðis.

Hinn 5. júlí 2025 var kynning á tillögu að nýju aðalskipulagi Hveragerðis 2025-2037. Það sem vakti athygli var að ekki var reynt að bæta úr göllum fyrri aðalskipulaga. Þjóðvegurinn og háspennulínur skemma áfram nýtingu suðursvæðis.Tillagan hefur 5 galla, sameiginlega mjög slæma, sem skipuleggjendur hefðu átt að greina og taka tillit til við úrvinnsluna. Þá hefði væntanlegu tjóni verið forðað. Það var ekki gert. Gallarnir eru eftirfarandi:
Þjóðvegur, háspennulínur, helgunarsvæði ásamt væntanlegum hljóðmönum taka um 100-150 allt upp í 200 m breitt landssvæði þvert í gegnum bæjarlandið og klýfur það fyrir miðju.

Miðsvæðið sem er það allra verðmætasta og nauðsynlegasta frá skipulagslegu sjónarhóli glatast uppbyggingu bæjarfélagsins til „eilífðar“.

Hveragerði mun samkvæmt aðalskipulagstillögunni byggjast upp sem tvö misstór „sjálfstæð“ þorp, sitt hvoru megin við þjóðveginn og háspennulínur. Þau 2-3 umferðargöng undir þjóðveginn breyta litlu í því sambandi. Byggðin verður aldrei samfelld með þessu fyrirkomulagi.

Syðri bæjarhlutinn verður tvo áratugi að byggjast upp, altaf “utangátta” og  minni bróðir,  og samfélagsleg þjónusta þróast óeðlilega á móti ríkjandi norðurhlutanum.
Hávaðinn og mengunin frá allt að 20 000 bifreiðum, sem ferðast daglega (að degi til) á þjóðvegi 1 kallar á hljóðmanir báðum meginn við þjóðveginn. Manirnar verða ekki bæjarprýði, hindra útsýni og móta myndrænan klofning, fyrir utan neikvæð áhrif. Samkvæmt vindrós um tíðni vinda er norðaáttin ríkjandi.

Framanskráðir gallar dæma tillögunina slæma bæði fyrir bæjarfélagið og íbúa þess. Lausnin er til staðar – mjög einföld:  Færa þarf þjóðveg og háspennulínur eins langt til suðurs og unnt er innan bæjarmarka við núverandi endurskoðun (sjá uppdrátt).  Við það breytist allt. Hveragerði þróast eðlilega, enginn klofningur á bæjarfélaginu, samfelld þróun byggðar og miðbæjar, engar hljóðmanir innan byggðar og engin undirgöng. Tenging þjóðvegs við Hveragerði þyrfti ekki mislæg gatnamót, aðeins stórt hringtorg. Ef þörf er á mislægum  gatnamótum síðar þarf að ætla þeim svæði.  Allir gallarnir 5 hverfa – hætta að vera til.

Það er ekki eins og skipuleggjendur hafi ekki áttað sig á mistökunum því undirritaður hefur hamrað á þessari lausn ótal sinnum með bréfum, uppdráttum og viðræðum frá jan/feb 2024, án nokkurra viðbragða eða skýringa frá skipulagsfulltrúa eða kjörnum fulltrúum í skipulagsmálum bæjarfélagsins.  Einu svörin sem undirritaður hefur fengið, þegar hann leyfði sér að benda á lausnina var að það væri „of seint“. Það kom aldrei fram fyrir hverja það væri of seint? 18 mánuðum síðar er ekki byrjað á neinum  framkvæmdum, sem betur fer.

Tillagan er trúlega ekki sök ráðgjafa því þeir hljóta að sjá og skilja mistökin. Ef þjóðvegurinn og raflínur verða ekki færðar í aðalskipulagi þá verður það alfarið á ábyrgð bæjarstjórnar. Það er ekki “of seint” fyrir Hveragerðisbæ því ennþá er nægur tími til að lagfæra tillögunina að væntanlegu aðalskipulagi. Nægilegt byggingarland er til staðar fyrir 4-6 ár svo enginn er þar þrýstingur í bili. Með flutningnum yrði Vegagerðinni og Landsneti skylt að fylgja nýju breyttu aðalskipulagi. Landsnet gæti fagnað að þurfa ekki að leggja í dýrar jarðlagnaframkvæmdir, en bæjarfélagið verður þá falla frá samningi um að grafa lagnir í jörð og heimila loftlagnir.

Yfirlitsuppdráttur sem sýnir tillögu (merkta með rauðu) að legu þjóðvegar 1 og háspennulagna eftir flutning til bæjarmarka Hveragerðis til suðurs. Undirlag er staðfest og gildandi aðalskipulag Hveragerðis 2017-2029.

Fyrir Vegagerðina má segja að það sé „of seint“ því lögð hefur verið alvöru vinna við hönnun þjóðvegarins, land undir veginn aðkeypt, magntöku- og útboðsgögn að sögn  tilbúin til framkvæmda. Hafa skal þó í huga að Vegagerðin sjálf óskaði eftir tilfærslu þjóðvegs, við gerð aðalskipulagsins 2017-2029, ekki bæjarfélagið. Með tilfærslunni til suðurs þyrfti engin undirgöng og þá sparast Vegagerðinni sá kostnaður. Vegagerðin þarf fjárveitingu til að unnt sé að hefja framkvæmdir, sem mættu vel dragast uns nýtt og betra skipulag lítur dagsins ljós. Aðalatriðið er að framkvæmdir eru ekki hafnar og því ekki “of seint” að fresta framkvæmdum og breyta hönnuninni. Bæjarstjórn þarf að sjá til þess að Vegagerðin bjóði ekki út lagningu nýs þjóðvegs samkvæmt núgildandi aðalskipulagi.

Bæjarfélagið þarf örugglega að endurgreiða Vegagerðinni einhvern kostnað a.m.k. að hluta t.d. með því að kaupa upp landið sem Vegagerðin keypti af landeigendum. Það væri þó ekki slæmt því bæjarfélagið þarf á þessu landi að halda, eins og annað land innan síns umdæmis. Bæjarfélagið gæti líka lagt til land (tekið eignarnámi ef svo ber undir) undir nýja þjóðveginn og háspennuvirki sem bætur til Vegagerðinnar og Landsnets. Sá kostnaður væri mun minni en kostnaðurinn sem fylgdi því að kljúfa Hveragerði í norður- og suðurhluta. Skifting smábæjar eins og Hveragerði er ekki skynsamleg.

Það má búast við því að gripið verði aftur til orðanna „það er of seint“, þegar aðilar geta ekki stolts síns vegna viðurkennt mistök sín. Þá kemur „karakterinn“ í ljós. Hagsmunir Hveragerðis eru samt aðalatriðið. Hér er um stóra breytingu í skipulagsmálum að ræða og erfitt fyrir suma að taka þátt í því. Bæjarstjórn er ábyrg fyrir skipulagsþróun bæjarfélagsins, og ef þessi skrif mynda vafa í huga hennar ætti hún að leita ráða hjá öháðum ráðgjafa á aðalskipulagssviði. Það yrði bænum ekki ofviða,  Skipulagsslys eru alltaf mjög dýr.

Undirritaður stendur við orð sín að stórt skipulagsslys sé framundan í Hveragerði. Heimamenn ættu að fylgjast vel með þróun aðalskipulagsins. Það er mikið í húfi.

Róbert Pétursson

Álfahvammi, Hveragerði

Nýjar fréttir