Coro Mundi, alþjóðlegur kór skipaður söngvurum víðs vegar að úr heiminum, heldur sína fyrstu tónleika á Íslandi í júlí. Kórinn kemur fram á tónleikum í Hörpu en bætir nú einnig við tónleikum í Skálholtsdómkirkju föstudagskvöldið 25. júlí kl. 20:00.
Á efnisskránni eru tvö ný og spennandi tónverk sem verða frumflutt. Þar ber fyrst að nefna Sicut Cervus eftir íslenska tónskáldið Sigurð Sævarsson, en einnig verður Sacred Place eftir bandaríska tónskáldið Alex Berko flutt í fyrsta sinn á Íslandi. Það er sex þátta verk samið fyrir kór, píanó, fiðlu og selló.
Tónleikarnir í Skálholti eru hluti af fyrstu Íslandsferð kórsins og gefst gestum þar einstakt tækifæri til að njóta alþjóðlegrar kórlistar í fallegu umhverfi.

