2.9 C
Selfoss

The Codfather mættur á Selfoss

Vinsælast

Matarvagninn Codfather opnaði á bílaplani Hótel Selfoss miðvikudaginn 9. júlí sl. Eigendur vagnsins eru sömu rekstraraðilar og sjá um veitingarnar á hótelinu. Það eru hjónin Alma Svanhild Róbertsdóttir og Fannar Geir Ólafsson ásamt Hlyni Friðfinnssyni. Þau fengu tilboð um að kaupa matarvagn og ákváðu að slá til.

Allt kláraðist fyrsta daginn

Codfather býður upp á „fish and chips“, djúpsteiktan humar í pylsubrauði og tvær týpur af „dirty fries.“ Planið er að bæta seinna við einum til tveimur réttum.

Viðtökur hafa verið mjög góðar að sögn Ölmu.

„Það er brjálað að gera. Fyrsta daginn kláraðist allt sem við vorum búin að undirbúa. Í gær var helmingi meira að gera, við náðum bara tveimur tímum á miðvikudaginn, við vorum opin frá hálf sex til ca átta og það kláraðist eiginlega bara allt,“ segir Alma í samtali við Dfs.is.

Hún segir „fish and chips“ vera langvinsælasta réttinn. „Fiskurinn er ekki í orly-deigi. Við erum með hann hjúpaðan í rasp þar sem undirstaðan er svart Doritos þannig að hann er smá „spicy.“ Hann er að fá mjög góðar viðtökur. Það er skemmtilegt að gera svona öðruvísi,“ segir Alma.

Ljósmynd: Dfs.is/EHJ.

Mikil reynsla í matargeiranum

Eigendurnir eru engir nýgræðingar í matargerð. Fannar opnaði Tryggvaskála á sínum tíma og var með Kaffi krús ásamt því að hann og Alma eiga Kjötbúrið og eru með mjög stóra veisluþjónustu þar. Hlynur opnaði Miðbar og Risið þegar það opnaði fyrst. Andri Björn, yfirkokkur Codfather, er eigandi Takkó, Röstí og Samúelsson í mathöllinni.

Vitna í Godfather-myndirnar

Aðspurð hvernig hugmyndin að nafninu kom upp segir Alma að góður vinur þeirra hafi komið með hugmyndina. „Okkur fannst hún mjög skemmtileg. Það er verið að vitna í Godfather-myndirnar. Merkið er tengt við þær og réttirnir á seðlinum eru nefndir eftir persónum úr myndunum.“

Vagninn verður opinn í allt sumar. Hann opnar klukkan hálf tólf/tólf og lokar klukkan 20 nema eftirspurnin sé mjög mikil þá er opið lengur.

Alma hvetur öll að koma á The Codfather og fá sér fisk og franskar.

Nýjar fréttir