Þór Stefánsson hefur gefið út ljóðabókina Sjálfsagðir hlutir og hæpnar fullyrðingar. Þetta er 20. ljóðabók hans en hann hefur einnig sent frá sér svipaðan fjölda bóka með ljóðaþýðingum, aðallega úr frönsku.
Bækur Þórs hafa komið út á nokkrum tungumálum, nú síðast komu Uppreisnir (2019) út á frönsku en sú bók er einnig væntanleg á arabísku og dönsku. Sýnishorn ljóða Þórs hafa verið þýdd á fjórða tug tungumála.
Yrkisefni nýju bókarinnar, Sjálfsagðir hlutir og hæpnar fullyrðingar, eru af ýmsum toga en samfélagsmál leita sífellt meira á skáldið og sér þess einkum stað í lokakaflanum.
Sigurður Þórir sér um útlit bókarinnar og teiknar myndir með kaflaheitum.
Oddur-útgáfa gefur bókina út og frekari upplýsingar um hana má fá hjá höfundi á netfanginu thor.stefansson@simnet.is eða í síma 844-5803.
Eftirfarandi er ljóð úr bókinni:
Regn
Ég gæti látið
ljóðunum rigna yfir þig.
En ég veit
að þú þyldir ekki
að verða gegnblautur
af skáldskap.


