3.9 C
Selfoss

Traust – lykillinn að sterkum parsamböndum

Vinsælast

Traust er ein af meginstoðum heilbrigðs parsambands. Það veitir öryggi, eykur nánd og hjálpar pörum að takast á við áskoranir og áföll. Þegar traust ríkir í sambandinu myndast rými fyrir viðkvæmni, opna tjáningu og samkennd. Þegar traustið brestur getur myndast fjarlægð milli aðila, sambandið verður óöruggt og streituvaldandi.

Í þessari grein verður fjallað um hvernig traust myndast, hvað getur grafið undan því og hvernig pör geta unnið að því að efla traust í sínu sambandi.

Örugg tengsl

Traust í parsambandi snýst um að geta reitt sig á að makinn vilji manni vel, sé heiðarlegur, styðjandi og til staðar þegar á reynir (Rempel, Holmes & Zanna, 1985). Að treysta er alltaf ákveðin áhætta og þegar við opnum okkur fyrir maka erum við að þora að sýna berskjöldun og vonumst til að makinn bregðist við af umhyggju og virðingu.

Samkvæmt kenningu John Bowlby (1969) um tengslamyndun er traust lykillinn að myndun öruggra tengsla. Sue Johnson (2019) leggur áherslu á að traust byggist á tilfinningalegu aðgengi – að vita að makinn sé til staðar, bæði í gleði og sorg.

Rannsóknir John Gottman (2015) og Sue Johnson (2019) sýna að traust byggist ekki á stórum dramatískum augnablikum, heldur í gegnum dagleg samskipti. Þau segja að þegar maki svarar boði um tengingu með hlýju, hlustun og stuðningi eykst traustið smám saman.

Traust sem grunnur að heilbrigðu sambandi

John Gottman hefur í áratugi rannsakað hvað gerir sambönd sterk og varanleg. Í líkani hans The Sound Relationship House er traust ein af grunnstoðunum. Gottman bendir á eftirfarandi þætti sem byggja traust:

• Að þekkja maka sinn vel og vera stöðugt að uppfæra þekkingu á honum.

• Að sýna aðdáun og virðingu í orðum og gjörðum.

• Að snúa sér að maka þegar hann leitar eftir tengingu.

• Að leysa ágreining með virðingu og forðast fyrirlitningu, gagnrýni, hunsun og óábyrgð.

• Að skapa sameiginlega merkingu og drauma í sambandinu.

Þegar pör rækta þessa þætti daglega styrkist sambandið, traustið vex og þau verða betur í stakk búin til að takast á við erfiðleika.

Tilfinningalegt aðgengi og tenging

Sue Johnson, sem þróaði gagnreynda meðferðaraðferðina Emotionally Focused Couple Therapy (EFT), leggur áherslu á að traust byggist ekki eingöngu á orðum heldur á djúpstæðri tilfinningalegri upplifun þess að makinn sé sannarlega til staðar þegar mest á reynir. Í bók sinni Hold Me Tight (2019) og í rannsóknum á EFT sýnir hún fram á að þegar pör efla tilfinningalega tengingu í daglegu lífi styrkist traustið og sambandið verður öruggara.

Lykilatriði eru:

• Að vera til staðar fyrir hvert annað í viðkvæmni.

• Að svara þörf fyrir tengsl með hlýju og næmni.

• Að þora að sýna eigin viðkvæmni og þarfir.

• Að vinna sig saman í gegnum ágreining og erfiðleika á öruggan hátt.

Þættir sem grafa undan trausti

Traust er brothætt og getur brostið hratt þegar annar aðilinn finnur fyrir skorti á umhyggju, ábyrgð eða heiðarleika. Helstu þættir sem grafa undan trausti eru:

• Óheiðarleiki eða leyndarmál.

• Ótrúmennska eða brot á trúnaði.

• Tilfinningaleg fjarlægð eða óaðgengi.

• Skortur á ábyrgð og viðvarandi afsakanir fyrir skaðlega hegðun.

• Fyrirlitning eða vanvirðing í samskiptum.

Í rannsóknum sínum hefur Gottman bent á að fyrirlitning er sá þáttur sem sterkast spáir fyrir um sambandsslit, enda grefur hún djúpt undan trausti og tengslum.

Að byggja upp traust að nýju

Þegar traust hefur brostið – til dæmis vegna ótryggðar eða skorts á stuðningi – getur verið erfitt að endurheimta það. Rannsóknir sýna þó að með markvissri vinnu geta pör byggt traustið upp að nýju (Gordon, Baucom & Snyder, 2004; Johnson, 2019).

Ferlið felur meðal annars í sér:

• Heiðarlega umræðu um það sem gerðist.

• Tjáningu sársauka og skilning á áhrifum fyrir báða aðila.

• Ábyrgð, iðrun og raunverulega viðleitni til að bæta skaðann.

• Uppbyggingu nýrrar tilfinningalegrar tengingar.

• Þolinmæði og skuldbindingu til að vinna sameiginlega að sambandinu.

Traust í parsambandi er ekki sjálfgefið, heldur áunnin tenging sem þarf stöðuga rækt. Með daglegum, litlum athöfnum, næmi fyrir þörfum hvors annars og heiðarlegum samskiptum má byggja upp traust sem skapar tilfinningalegt öryggi, djúpa nánd og aukna seiglu sambandsins.

Jónína Lóa Kristjánsdóttir,

Fjölskyldu og hjúkrunarfræðingur,

Sjalfsmildi.is.

Nýjar fréttir