Körfuboltabúðir voru haldnar á Flúðum á dögunum í 14. skipti í íþróttahúsi sveitarfélagsins.
Þetta eru búðir sem Árni Þór Hilmarsson stofnaði samhliða Heiðrúnu Kristmundsdóttur. Heiðrún hefur nú tekið við skipulagningu ásamt eiginmanni sínum, Ægi Þór Steinarssyni, landsliðsmanni í körfubolta.
Búðirnar eru mikilvæg fjáröflun fyrir yngriflokkastarf körfuboltadeildar Íþróttabandalags Uppsveita Árnessýslu, ÍBU. Körfuboltadeildin er einungis um tveggja ára gömul og því nýstofnuð deild innan ÍBU.
Árið í ár er ekki einungis merkilegt fyrir þær sakir að tæplega 190 börn alls staðar að af landinu voru mætt í Íþróttahúsið á Flúðum til að verða betri í körfubolta undir handleiðslu færustu þjálfara og leikmanna landsins,heldur vegna þess að sjálfur Evrópubikarinn mætti á svæðið á föstudeginum ásamt lukkudýri Eurobasket í ár, Marky Mark.
Bikarinn mætti í íþróttahúsið á Flúðum vegna þess að íslenska karlalandsliðið í körfubolta tryggði sér miða á Evrópumótið í haust, en fyrirliði liðsins, Ægir Þór, ásamt öðrum landsliðsmönnum og þjálfurum eru þjálfarar í körfuboltabúðunum á Flúðum.

Bikarinn er núna á ferð um Evrópu þar sem hann heimsækir átta þjóðir af þeim 24 sem komast á mótið. Það eru þær fjórar þjóðir sem halda mótið, ásamt samstarfsþjóðum. Ísland og Pólland náðu samkomulagi um að Ísland spili í Póllandi á Eurobasket í haust, og er Ísland því ein af þessum fjórum samstarfsþjóðum.
Bikarinn sem kom í íþróttahúsið á Flúðum verður afhentur sigurvegurum Eurobasket. Það er titill sem ekki minni menn en Luka Doncic, Dirk Nowitzki, Tony Parker, Victor Wembanyama, Pau Gasol, Giannis Antetokounmpo, og Jón Arnór Stefánsson hafa allir dreymt um að lyfta einn daginn, og einhverjir náð því markmiði.
Mótshaldarar fengu veður af fjölmennustu körfuboltabúðum landsins og óskuðu eftir að koma í heimsókn með bikarinn og kíkja á framtíðarlandsliðsleikmenn Íslands æfa körfubolta á Flúðum.

