Meistaramót Íslands í frjálsíþróttum 11-14 ára fór fram helgina 14.-15. júní í Reykjavík. Það var fámennt lið HSK/Selfoss sem mætti til leiks að þessu sinni en árangur var samt sem áður góður og fjölmargar bætingar sem litu dagsins ljós og nokkrum sinnum stigu keppendur HSK/Selfoss á pall. Engin HSK-met voru sett á mótinu að þessu sinni. Tveir flokkar náðu að vera í þriðja sæti í stigakeppninni í sínum flokkum, 14 ára piltar og 12 ára stúlkur.
Magnús Tryggvi Birgisson, Selfossi, átti frábæra helgi og stóð þrisvar sinnum á efsta palli. Hann sigraði kringlukast með kasti upp á 37,19m, þrístökk með stökki upp á 11,67m og spjótkast þar sem hann kastaði 39,16m í flokki 14 ára pilta, auk þess fékk hann silfur í langstökki fyrir 5,12m og brons í bæði kúluvarpi, 10,03m og 2000 m hlaupi. Ásta Kristín Ólafsdóttir, Selfossi, stórbætti sig í spjótkasti 14 ára stúlkna þegar spjótið sveif 40,03m og sigraði hún nokkuð örugglega þá grein.
Spjótið virðist liggja vel fyrir sunnlensku börnunum því að í 13 ára flokki pilta vannst gull og silfur. Kristján Karl Gunnarsson, Selfossi, sigraði þar með kasti upp á 34,30m og Andri Fannar Smárason, Selfossi, varð í öðru sæti með kasti upp á 30,95m og báðir voru þeir að stórbæta sig. Baltasar Jón Ingibjörnsson, úr Dímon, fékk brons í kringlukasti þegar hann kastaði 24,35m og strákarnir fengu svo brons í 4×100 m boðhlaupi þegar þeir hlupu á 62,60 sek., en sveitina skipuðu Kristján Reynisson, Þjótanda, Ottó Ingi Annýjarson, Þjótanda, Kristján Karl Gunnarsson, Selfossi og Andri Fannar Smárason. Sigríður Elva Jónsdóttir, Selfossi, var atkvæðamikil í flokki 13 ára stúlkna og komst tvisvar sinnum á pall og fékk brons í bæði skiptin, stökk 4,50m í langstökki og hljóp á 15,40 sek í 80 m grindahlaupi.
Bjarkey Sigurðardóttir, Selfossi, átti frábært mót í flokki 12 ára stúlkna, varð önnur í spjótkasti með 17,44m og í hástökki með 1,22m og varð svo í öðru sæti í heildarstigakeppni fjölþrautar í 12 ára flokki stúlkna. Hilmir Dreki Guðmundsson, Selfossi, kastaði lengst allra í kúluvarpi í flokki 12 ára pilta eða 7,42m og hann varð þriðji í langstökki, stökk lengst 4,07m.
Nikulás Tumi Ragnarsson, Þjótanda, kastaði næstlengst allra 11 ára pilta bæði í kúluvarpi, 8,22m og í spjótkasti, þar sem spjótið sveif 21,86 metra.

Ljósmynd: Aðsend.

Ljósmynd: Aðsend.

