Sindratorfæran fór fram á Hellu laugardaginn 3. maí að viðstöddum 6500 manns í blíðskaparveðri. 29 keppendur voru mættir til leiks í þessa fyrstu umferð Íslandsmótsins, keppnin var einnig sýnd í beinni útsendingu á RÚV 2 og Youtube þar sem tugþúsundir fylgdust með.
Strax í fyrstu brautunum, sem voru brautir í sandbrekkum og klöppum, sýndu keppendur mikil tilþrif og reyndust þessar brautir mörgum erfiðar. Þó ekki öllum. Íslandsmeistarinn Ingvar Jóhannesson á Víkingnum og Bjarnþór Elíasson á Olsen olsen voru jafnir með 540 stig á toppnum. Þeim fast á eftir komu Atli Jamil á Raptor, Guðmundur á Ótemjunni og Andri Már á Kúrekanum.

Þriðja braut var mikil ökuleikni og þar snerti Bjarnþór einni færri stiku en Ingvar sem datt niður í 4. sæti, og var því kominn með 40 stiga forskot fyrir tímabrautina. Atli og Þór fylgdu fast á eftir Bjarnþóri þegar komið var í tímabrautina. Ingvar hefur síðustu ár sýnt gríðarlega góðan akstur í tímabrautum og var hann því í góðri stöðu þar sem næstu tvær brautir voru á tíma.
Ingvar náði besta tímanum í þeim báðum og hlaut mikið lófaklapp í brekkunni þegar hann fleytti í mark í ánni á rosalegum tíma. Raptorinn hjá Atla Jamil saup smá vatn í ánni og var ekki nógu sáttur með það og datt niður í 5. sæti.

Fyrir lokabrautina, Mýrina, var spennan gríðarleg efstu níu bílarnir gátu staðið uppi sem sigurvegarar. Það mátti því lítið klikka hjá efstu mönnum. Mýrin var gríðarlega blaut að þessu sinni og ekki hefur það gerst í sjö ár að fyrsti bíll standi fastur eftir aðeins 40% brautar. Eins og gefur að skilja gekk ökumönnum illa að hitta á hliðin og voru þeir Ingvar og Atli báðir dæmdir utan brautar. Bjarnþór var einn þeirra sem kláruðu brautina og var kominn á toppinn. Jón Örn Ingileifsson á Útlaganum hafði hins vegar verið að klifra upp stigatöfluna alla keppnina og var í 4. sæti fyrir brautina. Hann kláraði án þess að koma við eina einustu stiku og fékk 350 stig að launum. Það skaut honum í fyrsta sætið og urðu þeir Bjarnþór og Ingvar að sætta sig við annað og þriðja.

Ljósmynd: Aðsend.
Finnur Aðalbjörnsson á Refnum sýndi frábæran akstur allan daginn, var óheppinn en bjargaði sér snilldarlega í tímabrautinni og hlaut tilþrifaverðlaunin að launum.
Í götubílaflokknum var það Bjarki Reynisson á Dýrinu sem stóð uppi sem sigurvegari, hann var útsjónarsamur alla keppnina, safnaði stigum og klúðraði engu. Bíllinn hékk í lagi og Bjarki vel að þessu kominn.
Sindratorfæran er orðinn stærsti akstursíþróttaviðburður á Íslandi og þangað koma fleiri en á Landsleik í fótbolta. Torfæran er að ná nýjum hæðum og keppendur hafa sjaldan verið fleiri. Næsta keppni fer fram í Stangarhyl við Laugarvatnsveg laugardaginn 31. maí. Það er 2. umferð Íslandsmótsins sem og bikarmót, þar má búast við mikilli baráttu og látlausum tilþrifum.


